Ómögulega ómögulegt

Ákvað í síðustu viku að hafa fimmtudagana framvegis sjónvarpslausa. Alveg eins og í denn þegar RÚV réði eitt ríkjum og bauð upp á stillimynd. Þeir eru hvort eð er hálfslappir. Rifjaði upp fyrir mér hvað var gert við slíkar kringumstæður. Tvennt í boði. Félagsbíó eða Nýjabíó. Eða jafnvel bara göngutúr upp og niður Hafnargötuna. Skil reyndar ekki hvernig krakkarnir í dag nenna á rúntinn með öllum þessum hringtorgum og hraðahindrunum. Mér verður að minnsta kosti flökurt. Lét þó til leiðast og þar sem búið var að loka Félagsbíói, þá var ekki um annað að ræða en skella sér í Nýjabíó. Heita að vísu Sambíóin í dag. Það er erfitt að ímynda sér að húsið hafi verið byggt árið 1941 í miðri síðari heimsstyrjöld. Guði sé lof fyrir forsjálni Eyjólfs og Guðnýjar Ásbergs og niðja þeirra í síðari tíð.

Á leiðinni rifjaði frúin upp fyrir mér þegar hún var miðasölustúlka í bíóinu. Svei mér þá ef ég mundi ekki eftir henni á bak við glerið í þá daga. Okkur krossbrá hins vegar þegar við komum í gömlu góðu lúgurnar og þær báðar þaktar ljósri slæðu. Hvað, þarf maður ekki lengur að kaupa miða, spurðum við hvort annað með undrunarsvip. Enginn Árni í dyrunum að rífa af. Blessunarlega voru lúgudömurnar fyrir innan í sælgætissölunni að selja miða. Saknaði þó viðskiptanna í gegnum lúguna. Sumu á bara alls ekki að breyta. Popp og kók ómissandi þáttur dægrastyttingarinnar og sem betur fer var þetta allt enn á sínum stað. Höfum oft fengið betra popp en við létum það ekki á okkur fá. Bíóandinn sveif yfir vötnum.

Salurinn niðri minnti okkur á þegar við unglingarnir fórum niður í hléi til þess að reykja. Í laumi fyrir einhverjum sem kynni að sjá og segja frá. Nostalgíunni laust í gegnum hugann á leiðinni niður tröppurnar. Klósettin áður á hægri hönd þegar niður var komið og hinum megin við vegginn var samkomustaðurinn Bergás. Diskódans og dúndurstuð nú orðið að bíósal tvö. Enn fleiri ljúfar minningar skutu upp kollinum.

Nema hvað hið ómögulega gerðist. Það var ekki bara að myndin fjallaði um hið ómögulega, þegar fimm manna fjölskylda sundrast í flóðbylgjunni á Thaílandi jólin 2004 og táraflóðið streymdi niður vanga bíógesta þegar þau fundu hvert annað að nýju eftir ótrúlegar hremmingar, heldur og settist frúin örugglega í eina sætið í bíósalnum, sem einhver hafði misst tyggigúmmíið í kvöldinu áður.