Ömmur á hverju strái

Skellti mér á útimarkað með mæðgunum í morgun. Fínt að bera pokana. Nenni helst ekki að kaupa eitthvað sjálfur enda þær miklu duglegri að gramsa. Og alltaf finna þær eitthvað. Handa mér líka. Ég leyfi mér hins vegar að virða fyrir mér mannfólkið í allri sinni flóru og dýrð. Eins og að vera á alheimsmarkaði. Kynþættir í öllum regnbogans litum. Ýmist að kaupa eða selja. Áhugavert að versla við Afríkufólkið. Reyna að selja manni sólgleraugu, belti eða úr. Andskoti lunkið að leiða þig áfram og athuga hvar sársaukamörkin liggja í buddunni. „Best price for you my friend!“ Lækka sig niður úr öllu velsæmi. Endaði eitt árið með tvær stórar tréstyttur, fimmtán kíló hvor um sig. Við heimferð fór kallinn í ferðatösku en kerlingin endaði hjá flugfreyjunum í handfarangri.


Spánverjarnir eru líka dásamlegir. Gala og tala eins og allir séu heyrnalausir. Nema þeir sjálfir. Selja grænmeti og ávexti beint frá býli. Tínt í morgun, segja þeir. Miklu ferskara en í búðunum. Og ódýrara. Engin aukaálagning. Ekkert strimla- eða kassakerfi í gangi. Nema jú, aurarnir fara ofan í kassa. Skókassa. Allt til sölu undir svarti blæju. Gömlu konurnar mæta eldsnemma með töskurnar sínar. Draga þær á eftir sér á hjólum. Allar pínulitlar og krúttlegar. Í rósóttum hnésíðum kjólum. Opnum pallíettuskóm. Minna mig svakalega á ömmu mína sálugu úr Höfnum, glettnar og hýrar á brá, með gleraugun á nefinu og Fortuna í munnvikinu. Hásar af kjaftagangi. Saumaklúbbar úti á götu.


Hugurinn ber mig heim, eitt augnablik. Suður í Hafnir. Niður í fjöru. Gamla bátalagið hans afa. Gott að sitja þar og skjóta steinum í hafflötinn. Fleyta kerlingar. Rifja upp stórlúðulöndun á bryggjunni. Amma heima að baka flatkökur. Inni í búri að púa. Afi mátti ekki sjá. Horfi á afsteypu af vitanum inni í stofu. Reykjanesvita. Stórfenglegur staður. Öldurótið lemur á björgunum. Síðasti geirfuglinn eins og vitavörður í suðri. Gunnuhver í næsta nágrenni eins og kraumandi grýlupottur.


„Ætlarðu að standa þarna eins og þvara“ söng í frúnni sem komin var tíu básum neðar. Búin að róta í fatahrúgunum, fletta nokkrum skópörum og var að máta mussu. „Hvernig líst þér á þessa? Keypti líka agalega falleg náttföt fyrir okkur bæði. Mín úr silki!“ Ég kinkaði kolli og brosti. Mínu breiðasta. Þurfti að leita að tengdó, sem var komin að bás bakarans. Nýbakað brauð og bollur. Ömmur vilja alltaf hafa eitthvað með kaffinu.