Nýbúinn frá Brellu

Ég áttaði mig á því að ég er loksins orðinn afi. Fór í gegnum nokkuð stíft ættleiðingarferli sem hentaði mér ágætlega. Hafði gengið með þennan draum í maganum í langan tíma, örugglega ein fimm ár. Las fullt af bókum er varðaði ábyrgðina að komast í hópinn. Ég veit ekki alveg hvort þetta telst hluti Íslendingabókar en augnsambandið mitt við krílið er þess virði að vera skráð í þá merku bók. Ég kalla mig afa daglega og haga mér sem slíkur. Hef ekki orðið var við neitt annað en að barnabarnið skilji það þegar afi býður á rúntinn. Hafnir uppáhaldsstaðurinn að ógleymdum gamla Patterson.

Ættleiðing er ekkert gamanmál. Maður þarf að fylla út alls kyns pappíra til þess að ættbókarskírteinið standist skoðun ef svo ber undir. Ég fullvissaði foreldrana að pappírsvinna væri mitt áhugamál og sérsvið. Nýbúinn flutti síðan til okkar síðastliðið haust og hefur vanist vel. Varð þriggja ára í janúar og braggast með afbrigðum. Eilítið matvandur til að byrja með en við fundum fljótlega út úr því. Göngutúrar í algjöru uppáhaldi enda tíðin verið afskaplega góð til útivistar. Honum er ákaflega vel við nágrannana og þá sérstaklega hin börnin í hverfinu. Grætur sáran í glugganum ef hann kemst ekki út að leika með þeim. Stundum koma þau í heimsókn og þá er sko gaman.

Brellu Búi er elstur fimm systkina. Hin fjögur voru líka ættleidd og búa flest á höfuðborgarsvæðinu. Var reyndar bara ein mörk við fæðingu en braggaðist fljótt og ber smæðina vel. Hefur aldrei kvartað undan neinu og er hugljúfi allra á heimilinu. Elskar að fara til langafa í heimsókn enda sá alvanur að umgangast barnabörn og barnabarnabörn. Alltaf eitthvað sem bíður í ísskápnum þar á bæ og enn betra að vera mataður af umhyggju og velútlátinni hjartahlýju. Gott að kúra í fanginu á honum á eftir og láta fara vel um sig í sófanum.

Ég bý svo vel að hafa heimavinnandi ömmu til þess að hugsa vel um mig á daginn. Hún passar að hafa reglu á hlutunum og byrjar alla morgna á því að bjóða upp á væna ostsneið og verðlaun á eftir. Síðan þarf ég að létta á mér með Húgó hálfbróður áður en morgunverkin byrja. Fer örsjaldan í pössun en þá hringir afi reglulega til að athuga hvort ekki sé allt í himnalagi. Ætli systkini mín Nói, Emma, Perla og Moli hafi það jafngott?