Meðalið svo gott

Það var sérlega ánægjulegt að vera viðstaddur afhendingu verðlauna frá Reykjanesbæ fyrir fjölskylduvæn fyrirtæki í bæjarfélaginu. Fjölskyldan og starfið tvinnast ótrúlega mikið saman. Það er ekki sjálfgefið að atvinnurekendur taki tillit til allra þeirra þátta sem fjölskylda starfsmanns þarfnast í daglegu amstri. Við þurfum t.d. að skreppa í foreldraviðtöl í skólann, til læknis, með bílinn í viðgerð, mæta við jarðarfarir eða sækja barnið fyrr til dagmömmunnar. Við megum heldur ekki gleyma að endurgjalda greiðann þegar atvinnurekandinn þarf á því að halda.

Starfsmannafélagið á mínum vinnustað hefur það að leiðarljósi í starfsáætlun sinni að fínpússa sambandið á milli þessara þátta. Árshátíðin að venju miðdepill ársins en bíóferðir, gönguferðir, keila, sumarhátíð, jólahlaðborð eða villibráðakvöld, að ógleymdum leikhúsferðum, standa starfsfólki til boða fyrir hóflegt verð. Ég nýtti mér einmitt slíkt tilboð fyrir stuttu og bauð frúnni með mér á Mary Poppins í Borgarleikhúsinu. Einhverra hluta vegna kom Sigurður Fáfnisbani upp í huga minn á leiðinni í bæinn en í barnslegri minningu var leikritið meira og minna sveipað svartri dulu. Mundi þó vel eftir aðalpersónunni, sverðinu og drekanum sem hann vó.

Í Völsunga sögu eru hetjukvæði um Sigurð Fáfnisbana sem drap drekann Fáfni, gekk að eiga Guðrúnu Gjúkadóttur og reið yfir vafurlogann til Brynhildar Buðladóttur. Brátt kom upp ósætti í fjölskyldunni og Gunnar Gjúkason, eiginmaður Brynhildar en mágur Sigurðar og vinur, drap Sigurð. Brynhildur gekk á bál og Guðrún Gjúkadóttir var gefin Atla sem síðan vó bræður hennar, Gunnar og Högna. Guðrún hefndi svo bræðra sinna með því að myrða eiginmann sinn og unga syni þeirra. Kemur tilboðinu áðurnefnda ekkert við, bara smá sögulegur útúrdúr.

Sýningin í Borgarleikhúsinu var eitt leiftrandi sjónarspil. Hún var eiginlega þokkalega pottþétt. Lífið hjá bankastarfsmanninum George Banks eins og klippt út úr íslenskum raunveruleika, nema hvað frúin var heimavinnandi með barnfóstru og þjónustufólk. Gerðist enda löngu fyrir fjölskylduvænu atvinnumenninguna. Krakkaormarnir í Kirsutrjárunni ærslafull eins og börnin á Birkiteig. Sótarinn eflaust komið ungviðinu á sýningunni undarlega fyrir sjónir, enda stromparnir aflagðir fyrir langa löngu með innreið hitaveitunnar. Fáir sem ganga um bæinn með hringlaga kúst nú til dags. Foreldrarnir muna máski eftir götusópurunum. En hin óviðjafnanlega Mary Poppins átti engan sinn líka. Sveif um á regnhlífinni einni saman og söng, eins og engill af himnum ofan, um sléttfulla matskeið af sykri sem gerir meðalið svo gott. Jafnvel miðaldra gumi eins og ég fékk gæsahúð upp eftir öllum kroppnum.