Mátt gera betur

Ég beið spenntur eftir því að heyra hvað fjárlagafrumvarpið bæri í skauti sér. Á meðan fjármálaráðherrann var að koma sér fyrir, flakkaði ég á milli stöðva í imbakassanum og datt inn á kynningu á sjónvarpsþætti þar sem hin ægifagra Sharon Osbourne blasti við í allri sinni dýrð. Þar lýsti hún því yfir, að hún og maðurinn hennar Ozzy karlinn væru alsæl með lífið og tilveruna, þrátt fyrir hina ýmsu agnúa sem vafist hafa fyrir þeim á lífsleiðinni. Skatturinn hefur verið að elta skottið á þeim upp á síðkastið og svo hefur sá gamli verið að nota neftóbakið full mikið á undanförnum árum. Mér var hugsað til múnderingarinnar minnar uppi í skáp, hárkollunnar, kringlóttu gleraugnanna, hringjanna og hálsmenanna, sem ég skreytti mig með á grímuballi með starfsfólki Bláa lónsins fyrir nokkrum árum.

Ég ákvað að vera frakkur og spyrja frúna hvernig lífið væri búið að vera með hinum alíslenska Ozzy. Áður en hún fékk að svara spurningunni, fannst mér ég þurfa að yfirfara alla mína kostir og lesti áður, til að liðka um fyrir egóinu. Tíundaði flest allt hið góða sem í mér byggi og sannast sagna, þá var sem fagurgalinn hljómaði eins og hörpusláttur í hægagangi. Rakti lífsferilinn í grófum dráttum og dásamaði meðal annars stúkustarfið, sem hefur lagt mér dýrmæt lóð á vogarskálarnar í gegnum tíðina. Fátt betra en sá hugljúfi félagsskapur enda uppbyggileg og næringarrík gildi þar í fyrirrúmi.  

Ég renndi frekar hratt í gegnum lestina. Vissulega hafði ég ekki alltaf gengið hægt um gleðinnar dyr í farsa ungdómsins en hvað gerðu ekki blómabörnin hér áður fyrr. Undantekningalaust fann ég bitlausar afsakanir fyrir því sem aflaga hafði farið en taldi mig þó verðugan af þolanlegum dómi, sem vofði yfir mér á hálu svellinu. Ég sá bersýnilega að hún hafði haft góðan tíma til þess að móta ámátlegt svar við spurningunni, enda hafði ég malað um allt og ekki neitt síðasta hálftímann.

Bjarni Ben dró ekki dul á að fjárlögin væru þau langbestu frá hruni. Ríkiskassinn yrði í fyrsta skipti rekinn réttu megin við núllið og þrátt fyrir sárgrætilegan niðurskurð á rekstri ýmissa stofnana og allnokkrum verkefnum skotið á frest, væru álitlegar og innpakkaðar ráðstafanir í hagsældinni framundan. Ráðherrann, sem er langt frá því að vera í uppáhaldi hjá húsfreyjunni, rak smiðshöggið á endanlegan úrskurð maddömunnar, þar sem hún komst að sameiginlegri niðurstöðu um okkur báða. Það hefði alltaf mátt gera betur.