Maður með mönnum

Hann var karrýgulur og bogadreginn. Hafði safnað fyrir honum undanfarin sumur, ýmist í vinnu hjá Jóa Gauk í saltfiski og skreið eða á golfvellinum í Leiru, undir styrkri stjórn Harðar rakara. Lagði aurana samviskusamlega inn í Sparisjóðinn hjá Palla, Gústu og Tomma að beiðni foreldranna. Fékk augastað á gripnum nokkrum mánuðum fyrir bílprófið. Maggi Þorgeirs bauð mér hann á kostakjörum. Ekki hægt annað en að ganga að kaupunum. Það var fiðringur í maganum að kaupa fyrsta bílinn. Ítalskur Fiat 127. Draumabílinn minn. Engu síðri en ferkantaða Ladan, sem var vinsæl hjá öðrum. Það var erfitt að vera desemberbarn þegar kom að þessum áfanga í lífinu. Þar að auki í miðjum prófum. Stærðfræðipróf hjá Gísla Sigurkarls og bílpróf á sama degi reyndi á þolrifin. Manni kallinn hafði blessunarlega kennt mér vel í umferðinni. Stimplaði mig inn með stæl.

Það var yndislegt að aka niður Hafnargötuna. Leið eins og kóngi í ríki mínu. Hafði reyndar stolist einu sinni til þess að taka í hann áður en ég fékk prófið. Bara stuttan rúnt á milli húsa til þess að fá tilfinninguna fyrir honum. Kúplingin og gírarnir eins og hugur manns. Rúðuþurrkurnar flunkunýjar og útvarpið náði Kananum. Pústið svo gott sem nýtt og ekki riðbóla sjáanleg. Stífbónaður og strokinn, nánast eins og Eyfi pjakkur hefði komist í hann. Tryggður í bak og fyrir hjá Gulla í Brunabót. „Svona gullmoli verður að fara í kaskó, annað ekki í stöðunni,“ sagði hann ábyggilegur og brúnaþungur á svipinn. Ég leit út um gluggann á skrifstofunni og var hjartanlega sammála honum. Jón í Eftirlitinu skoðaði hann líka gaumgæfilega. Taldi að ég hefði fengið úrvalsbíl. „Þú færð hvítan miða í rúðuna, drengurinn minn. Kíktu samt til hans Bjarna á Aðalstöðinni, sjáðu hvort hann eigi ekki betri skó undir hann.“

Ég ók varfærnislega áleiðis í slyddu og krapa. Framhjóladrifið virkaði vel við svona aðstæður. „Áttu þrettán tommu vetrardekk undir hann?“ spurði ég borubrattur en auralítill. „Mega alveg vera lítið notuð, ef þú átt.“ Í húsinu gegnt okkur sátu leigubílstjórarnir á Stöðinni og spiluðu á spil. Ekkert að gera. Lilli tengdó leit upp frá spilaborðinu og sá skólapiltinn harka á dekkjaverkstæðinu. „Láttu hann hafa ný dekk, ég hjálpa honum með mismuninn.“ Þetta var allt annað. Virkaði aðeins hærri og nú kæmist ég allt. Ég var orðinn maður með mönnum. Skrúfaði niður hliðarrúðuna og teygði olnbogann út í hríðina.