Lífið í hnotskurn

Kirkjuklukkan í Ytri-Njarðvíkurkirkju hljómar einkennilega. Fæ alltaf sting í magann að hlusta á hana klingja við athafnir. Hef það sterklega á tilfinningunni að það þurfi að stilla gripinn. Ég vil hafa hljóminn tæran og skýran. Viðurkenni þó að ég hef enga þekkingu á því hvernig hún á að hljóma, en eitthvað hlýtur að þurfa að bæta. Sérstaklega núna þegar aldurinn færist yfir og hlutskipti okkar verður æ algengara að kveðja nána ættingja og samferðamenn. Það var mér ljúfsárt fyrir skömmu að kveðja yndislegan mann, sem reynst hafði mér ákaflega vel á árum áður. Upplifa kynnin og ævisöguna á kveðjustund.

Ég hvarf rúmlega þrjátíu ár aftur í tímann. Stráklingurinn ég að feta mín fyrstu skref á lífsbrautinni og ekki úr vegi að gera það undir styrkri stjórn velgjörðarfólks. „Kvaddi“ heimahagana og flutti inn á nýju fjölskylduna á sautjánda ári. Varð einn af þeim frá fyrsta degi. Kærastan á heimilinu einungis fimmtán, að verða sextán. Námið í algleymingi og ungdómurinn eins og flestir þekkja hann. Ýmist hlátur eða grátur. Yfirvegun og gott atlæti hélt okkur kærustuparinu á mottunni. Saltað hrossakjöt úr heimahaga reyndi á þolrifin. Með tíð og tíma vann það á. Eldamennskan í hávegum höfð á heimilinu. Sunnudagsmessan í útvarpinu leið inn í herbergið með undraverðum ilmi sem ekkert fékk staðist. Lambalæri eða lambahryggur á borðum án undantekninga.

Dvöl mín breyttist úr dögum í vikur. Úr vikum í mánuði. Mánuðir urðu að árum. Lífið var leikur. Við námslok beið mín fagurlega skreytt terta á útskriftardegi. Námsherbergið hafði getið af sér afurð í ró og spekt. Fékk algjört næði þegar svo bar undir. Snarkið í ritvélinni þýddi algera friðhelgi. Spurning um hverjir væru stoltari, ég eða þau. Umhyggjan óumræðileg. Skein í gegn. Lífið hélt áfram sinn vanagang og árin fimm sem ég naut við á heimilinu reyndust mér ógleymanleg. Lærði heil ósköp um lífið og tilveruna. Lagði af stað með gott veganesti.

Stundirnar gleymast eigi svo glatt. Fylgdist með þeim hjónum af natni og nærgætni á hliðarlínunni. Góðar kveðjur og umhyggja streymdu áfram jafnvel þó samskiptin hefðu smám saman dvínað. Innlit, fyrirspurnir og jólakort tryggðu böndin á báða bóga. Að æviskeiði loknu standa eftir angurværar minningar um góðmennsku og gjafmildi, sem seint verða afmáðar. Vænleg arfleifð sem tekur nú við keflinu. Prestinum var tíðrætt um vorið sem er á næsta leiti. Regnið nærir alla sprettu, jafnt í lífinu sem og í náttúrunni.