Lífið í bútum

Eitt af því sem ég uni vel á sumrin er að slá blettinn. Finna graslyktina anga það sem eftir lifir dags og upplifa snyrtimennskuna í kringum mig á eftir. Hef alfarið neitað því að helluleggja blettinn eða minnka bleðilinn sem neinu nemur. Engu að síður hálfgert frímerki hjá mér. Unaðsstundirnar eru þegar ég fer á æskustöðvarnar og fæ að slá blettinn í föðurhúsum. Í þá gömlu góðu daga voru blettirnir stórir og mun minna af gróðri eða trjám. Allir áttu sinn afmarkaða ramma, vel girtan og krakkarnir léku sér í boltaleik eða í öðrum kappleikjum. Þótti sjálfsagt að vera innan girðingar tímunum saman. Stikaði að gamni í síðasta slætti fermetrana sem sláttuvélin malaði í mosavöxnu grasinu. Mér reiknaðist að þeir væru vel á þriðja hundraðið. Æskan rifjaðist upp um leið í hverju skrefi.

Verkefnin í vinnunni eru líka mæld. Kannski ekki í fermetrunum en sannarlega í fjölda og örugglega í afrakstri og niðurstöðum. Þau eru umtalsverð og krefjast samvinnu allra aðila til þess að ná árangri. Eftirfylgni og aðhald þjappa hópnum saman og allir hlekkir skipta máli. Sama hversu mikilvægir þeir teljast. Samspilið þarf að vera órjúfanlegt og allir að treysta á hvern annan. Trúnaður og traust þarf að ríkja manna í millum. Vendipunktarnir skipta sköpum að settu marki árangurs. Jafnvel þó að allt gangi ekki að óskum eru verkefnin til þess að leysa þau. Á farsælan hátt. Mannfólkið þó margvíslegt og manngerðirnar ólíkar. Skiptir öllu að rétta blandan sé fyrir hendi og starfsfólkið vegi hvort annað upp í kostum og kynjum.  

Ég skrópaði svakalega í skúringunum heima fyrir. Ákvað að taka mér frí eina helgi og taldi mér trú um að heimilið þyldi eins og eitt skróp á tæplega þrjátíu ára ferli. Að sjálfsögðu hafði ég rangt fyrir mér. Tveimur fleira í heimili eftir að dóttirin kom í sumarheimsókn ásamt unnusta og annar ferfætlingurinn þvílíkt að fara úr hárum. Ég lofaði sjálfum mér að sópa þeim mun oftar ef ég slyppi við atganginn en auðvitað kom mér þetta í koll þegar líða tók á seinni vikuna. Tvöfalt meiri vinna þegar tekið var til hendinni.

Hugurinn einsettur á veiðiferðina sem framundan er. Flokka flugurnar upp á nýtt og koma skipulagi á veiðiboxið. Yfirfara línurnar og hjólin og setja veiðikerfi upp í huganum. Huga að kostinum handa veiðifélögunum. Ævintýrin framundan. Angurværð og góður félagsskapur í forystusætinu næstu daga. Lífið er yndislegt, jafnvel í bútum.