Kveiktu á perunni

Þegar ég reið á vaðið með fyrsta pistilinn minn fyrir réttum tveimur árum síðan, þá kvartaði ég sárlega yfir því að okkur vantaði slátrara í bæjarfélagið, sem gæti boðið okkur þegnunum upp á alvöru kjötborð. Innpakkaðar og oftar en ekki óhagkvæmar stærðir helgarsteika hafa staðið okkur til boða í verslunum svæðisins um árabil. Mér vitanlega gera heimamenn sér ferðir til höfuðborgarinnar til þess að kaupa þennan hluta matarkörfunnar fyrir helgar og því miður er oft ákveðið að nýta tækifærið og klára önnur innkaup fjarri heimaverslun. Ég get ekki fullyrt um að fyrrum þingmaður og aflakló úr Njarðvíkurhverfi passi við þá ímynd sem við höfum af slátrara en guði sé lof fyrir frumkvæði hans til að laga valkvíðann fyrir framan kæliborðið í kaupfélaginu. Og hvar er betra en að koma því fyrir í sjálfstæðishúsinu í heimahögunum? Ég hlakka til þess að nýta mér þennan nýja valkost og vona svo sannarlega að versluninni verði vel tekið.

Í kjölfar nýliðinnar ljósahátíðar og komandi hátíðar ljóssins, þá er ekki úr vegi að ræða aftur lýsinguna á Reykjanesbrautinni. Nú líður að þeim tíma árs að Vegagerðin leggi höfuðið í bleyti vegna sparnaðarkrafna fjárlagafrumvarpsins og að sá sparnaður komi að fullu til framkvæmda á næstu mánuðum. Þeir halda eflaust áfram að spara með þessa árs fjárlög á bakinu með því að kveikja á öðrum hverjum staur, enda féllu andmæli vegna þeirrar ákvörðunar í gleymskunnar dá og umferðarörygginu, sem stefnt var í voða, var ekki nægilega fylgt vel á eftir. Hver veit nema þriðji hver staur verði látinn loga eftir áramót, miðað við umræðuna um almennan niðurskurð hjá stofnunum fyrir komandi ár. Á endanum hverfa þeir fyrir fullt og allt.

Mig skal þó ekki undra að þessir herramenn þurfi á næstunni að líta til verðlags á orku og aðföngum. Ef ég lít í eigin barm, þá furða ég mig á verðlagningu á ljósaperum nú til dags. Gömlu glóperurnar eru  horfnar af sjónarsviðinu og við taka nýjar tegundir, halógen, sparperur og hvað þetta nú heitir allt saman, sem eru margfalt dýrari en vonandi endingarbetri og orkusparandi. Venjulegar heimilisperur standa nú í tæpum fimm hundruð krónum stykkið og hægt er að sjá verðlag vel á annað þúsund krónur, eftir því hvers lags tegund er um að ræða. Vona innilega að raforkuverðið verði áfram á viðunandi prís og að eigendur Gullgæsarinnar fari ekki að heimta aukinn arð og hækki það úr hófi með tíð og tíma, þrátt fyrir vilyrði að svo færi ekki.