Krati með gati

Áhugi minn á bæjarpólitíkinni hefur dvínað með árunum. Sjálfstæðismenn hafa ráðið ríkjum undanfarin kjörtímabil og máttlaus minnihlutinn ekki verið svipur hjá sjón. Enda í minnihluta. Árni bæjó hefur siglt skútunni milli skers og báru en afstýrt strandi. Bæjarbragurinn hefur tekið miklum breytingum á þessum tíma. Bæði til góðs og til hins verra. Loforðin láta á sér standa og tregi ríkisstjórnarinnar hefur haft áhrif á stöðuna. Jóhanna alveg búin á því og nær ekki að klára með stæl. Ég sakna kratanna. Alþýðufólksins og jafnaðarmannanna sem börðu bumbur og héldu flottustu kosningapartíin. Tala nú ekki um þegar bæirnir voru tveir og Hafnirnar afskekktar í hreppapólitík.

Njarðvíkingar voru svakalegar harðir. Sjonni Hafsteins og Óli Thord stýrðu krataherdeildinni og áróðursherferðunum með dreifingu á einblöðungum. Ekkert að skafa af hlutunum. Sögðu það sem ekki mátti segja. Allir lásu en sumir bölvuðu í hljóði. Nú heyja menn sitt áróðursstríð á fésbókinni en þangað fer ég afar sjaldan. Alþingiskosningar á næsta ári eru meira að segja búnar að skemma fyrir okkur, sem verðum fimmtug á næsta ári, allsherjar afmælisveislu sem halda átti 27. apríl. Að vísu áttuðum við okkur ekki á því að þetta væri kjördagur! Finnum út úr því en ætlum líka að marsera niður Hafnargötuna á Ljósanótt og biðja bæjarstjórann um að fara ekki með sömu Helguvíkurræðuna fjórða árið í röð. Við kunnum hana öll utan að.

Ég var brennandi heitur í pólitíkinni á yngri árum. Hafði minn elsta bróður að fyrirmynd og annað gott fólk í forystunni. Prentuðum út heilu símaskrárnar af heimilisföngum kjósenda og hringdum eins og enginn væri morgundagurinn til álitlegra atkvæða. Skólakrakkarnir voru mitt sérsvið og Kratahöllin minn heimavöllur. Fána flokksins, mynd af kratarós í hendi, var flaggað með virktum og undirtónum Átján rauðra rósa. Jafnaðarmennskan þótti flott, svei mér þá!

Ástandið hefur oft verið betra. Ég er þó bjartsýnn á framhaldið og trúi því að úr atvinnuástandinu rætist. Möguleikarnir eru fjölmargir og ég lofa þolinmæði bæjarfulltrúanna  fyrir að hanga á kosningaloforðunum. Treysti því að þau verði efnd. Það er hins vegar ekki útlit fyrir að það verði breyting á stjórn bæjarins. Framsókn er í felum og Samfylkingin hefur leitað æ meira til vinstri í seinni tíð. Hefur ekki fundið fjölina sem hugmyndasmiðirnir ætluðu henni. Sjálfur hef ég ekki hugmynd um hvort ég er hægri eða vinstri krati. Ætli ég sé ekki bara krati með gati?