Konur eru klárar

Vitið þið hversu mikils virði það er að hafa konur nálægt sér allan daginn og alla daga? Ómetanlegt! Ég meina það, ískalt! Konur eru eitthvert mesta undur veraldar þó víða væri leitað. Þær eru bæði viska og samviska mannsins í einu og sama orðinu. Hef mikið gaman af þeim og samvist með kvenkyninu er eitthvað sem allir karlar þurfa á að halda, þá meina ég einnig utan veggja heimilisins. Drifkraftar þeirra og elja eiga engan sinn líka. Magnaðar.

Karlaveldið á Íslandi er ennþá samt algert, næstum því . Hanna Birna beið ósigur gegn Bjarna Ben en stóð að mínu mati samt uppi sem sigurvegari. Driftin hreinlega vellur út án erfiðismuna. Hún er snjöll. Ég kann að meta konur með kjark og ágirnd. Þær eru einhvern veginn svo......! Nei, ég meina klárar! Hef góðar fyrirmyndir sem ég lít upp til. Er alltaf að læra af þeim. Endalausar hugmyndir, ráð og tillögur. Jafnvel í öðru veldi.

Stundum fara þær þó yfir strikið, án þess að blikna. Depla kannski auga en ekki meir. Sjálfur fékk ég í móðurarf góðan skammt af einlægni og hlýju. Geðprýðiin fylgdi með í kaupbæti. Hún fæst ekki bara úr safa krækiberjanna, sem tínd eru í landi Leiru eða Hafna. Andoxun berjanna veita manni samkvæmt læknaritum vörn gegn hrukkumyndun og viðhalda einstakri geðprýði, sem ekki fæst annarsstaðar nema e.t.v. úr móðurmjókinni. Drekk hálft glas af krækiberjasafti á hverjum morgni og fæ mér B-vítamín töflu fyrir hársvörðinn. Kemur konum ekkert við, langaði bara að segja ykkur þetta.

Við verðum samt að huga betur að konum þessa lands, þannig að sómi sé að. Þær sinna störfum sínum af kostgæfni og einurð, en hafa borið skarðan hlut frá borði launalega séð. Það sýna nýlegar kannanir þessa árs og fyrri ára. Typpin hafa enn yfirhöndina, hvar sem litið er. Reisulegir gripir en geta andskotann ekkert betur. Getum við látið þetta líðast öllu lengur? Ég bara spyr.