Júdas Ískaríot

Í skólanum var okkur sögð saga af lærisveininum Júdasi, sem sveik og framseldi Jesú Krist í hendurnar á rómverskum yfirvöldum. Þrjátíu silfurpeningar var allt sem þurfti til. Tvö þúsund árum síðar er enn deilt um ástæðu gjörðar hans. Samkvæmt Biblíunni sá Jesús svikin fyrir og lét þau jafnvel viðgangast. Hvað sem því líður, þá hefur lærisveinninn væntanlega ekki átt von á því að framferði  hans myndi haft jafn afdrifaríkar afleiðingar í för með sér hjá mannkyninu eftir hans dag.

Ég er til dæmis mjög illa svikinn af líðandi sumri. Sólarstundir þessarar árstíðar eru næstum helmingi færri en í fyrra og úrkoman margfalt meiri í millimetrum talið. Þá er ég afskaplega illa svikinn af veiðigyðjunni á þessu sumri. Hef farið í tvo veiðitúra það sem af er og einungis náð einum titti, sem varla hreyfði vigtina eða teygði á málbandinu. Mér finnst ég illa svikinn bæjaryfirvöldum sem sáu ekki sóma sinn í því að slá grasmanirnar á bakvið heima. Meira virðist hafa verið lagt upp úr því að búa til nýjar manir um allan bæ, frekar en að viðhalda þeim sem fyrir eru.

Hverjir eru ekki illa sviknir af berjasprettunni á suðvesturhorninu þetta sumarið? Í fyrra var veðrið alltof gott fyrir berjasprettu en í ár er veðrið alltof slæmt. Það verður að minnsta kosti ekkert saftað á mínum bæ þetta haustið. Ég er líka afskaplega illa svikinn af golfsveiflunni. Fann hana bara aldrei og forgjöfin fer versnandi með hverjum deginum. Sennilegasta ástæða fyrir því er sú að ég var alltof latur að fara út á völl að æfa mig. Ætla kenna veðrinu aftur um ófarirnar. Þá erum við öll illa svikin af ríkisvaldinu og loforðum þeirra undanfarin ár. Þau gerðu ekkert í aflagningu verðtryggingarinnar og áttu í mesta basli í slagnum við verðbólguna.

Eigum við ekki að vona að nýju herrarnir og frúrnar taki þetta fastari tökum. Ég verð illa svikinn ef við fáum ekki enn einn kvenráðherrann í kjördæmið. Það bendir allt til þess enda eru hinar tvær sem koma til greina ýmist komnar á aldur eða verulega óþekkar. Hvað sem öllu líður, þá erum við ennþá að súpa seyðið af gjörðum lærisveinsins, sem hafði eflaust allt annað í hyggju en að hvekkja nútímamanninn í sinni víðustu mynd. Eða hvað? Ég er þó staðráðinn í því að láta kvikindið ekki aftra mér því að mæta illa svikinn á Júdasar ballið á morgun. Góða skemmtun um helgina!