Ja fussum svei

Litla gula hænan fann fræ, það var hveitifræ. Hver vill sá hveitinu? Hver vill slá hveitið? Hver vill þreskja hveitið? Hver vill mala hveitið? Hver vill búa til brauðið? spurði hún við hvern áfanga á leiðinni til gómsæta brauðsins. Eins og við vitum öll þá nenntu hvorki hundurinn, kötturinn né svínið að hjálpa til. Þegar hún var búin að baka brauðið voru þau hins vegar öll tilbúin til þess að njóta þess. Og helst að eiga eitthvað afgangs handa afkvæmunum sínum, sem voru að fara í skólaferðalag. Án þess að leggja hönd á plóginn. Ef við verslum ekki heima eða pössum upp á að hlúa að nærsamfélaginu er hætta á því að allar litlu gulu hænurnar pakki saman og borði brauðið sitt sjálfar. Og fari svo. Sagan hefur kennt okkur að við viljum hafa allt í kringum okkur en ekki endilega að leggja okkar fram til þess að svo verði áfram. Lexía í siðfræði sem eitthvað hefur skolast til. „Ekki ég“ kórinn þokkalega virkur.

Skólastjórarnir fundu fræ, sáðu og þreskjuðu það sem best þeir gátu. Allir ánægðir og árangurinn lét ekki á sér standa. Kostaði eitthvað meira en það átti að gera. Eitthvað pínu pons. Meira en Excel-skjölin sögðu til um að það ætti að kosta. Samt voru allir ánægðir og foreldrarnir stoltir. Jafnt heilbrigðra sem og þeirra sem þurfa á séraðstoð að halda. Ófáar myndatökurnar þar sem allir eru með bros á vör. Tossabekkir heyra sögunni til. Blessunarlega. Allir jafnir. Allir glaðir. Bæjarfógetinn Bastían í vanda staddur. Ja, fussum svei og fussum svei! Soffía frænka heimtar að fá að taka til á heimilinu. Þvo eyrun og sópa burtu óhreinindin.

Við verðum auðvitað að nýta fjármagnið í eitthvað uppbyggilegt. Steypa vegkanta, byggja torg, reisa hallir, verða borg. Getur verið að forgangsröðunin hafi eitthvað skolast til? Orðið hált á svellinu eða runnið undan sleðanum niður brekkuna? Vont að fá hann í bakið á eftir. Heyrum við engar bjöllur hljóma? Þurfum við að finna gamla brunalúðurinn sem var á löggustöðinni á Hafnargötunni og setja hann í gang?

Við viljum auðvitað ekki hafa þetta svona. Nú verðum við að treysta böndin og líta okkur nær. Þurfum öll að rísa upp og lofa hvoru öðru að breyta til batnaðar. Forgangsraða upp á nýtt. Brottfluttir eru fleiri en aðfluttir. Við ætlum okkur að snúa þróuninni við. Förum létt með það. Við erum í vinningsliðinu þessa dagana.