Í lífsins spuna

Knútur litli var ekki hár í loftinu. Næstum höfðinu styttri en jafnaldrar sínir og þéttriðinn eins og pabbi sinn. Burstaklippt og englahvítt hárið reis eins og höfuðfat upp úr smágerðu andlitinu. Gleraugun innrömmuðu hálfpíreygð augu, sem voru fagurblá eins og himininn á björtum sumardegi. Hann var yngstur systkina sinna og afskaplega glaðlynt barn. En hann var ekki eins og flest börnin í skólanum. Sérkennilegur talandi og hamlandi hæsi gerðu hann næstum óskiljanlegan. Skólasystkinin  stríddu honum stundum í frímínútum. Flest nema Bjartey. Hún var vinkona hans og verndarengill. Oftar en ekki urðu þau samferða heim úr skólanum og stundum bauð hún honum inn til að leika með sér í eftirmiðdaginn.

Mamma hans var oftast upptekin í lok skóladags enda hafði hún þurft að fara aftur út á vinnumarkaðinn. Komst að á skrifstofu frá níu til fimm. Vel að sér í bókhaldi eftir að hafa unnið hjá endurskoðanda árum saman. Hún kunni vel við sig í nýja starfinu en þurfti að skipuleggja heimilishaldið alveg upp á nýtt. Það var erfitt að þurfa að fara vinna frá börnunum sem hún unni svo heitt. Systurnar voru duglegar að hjálpa til við heimilisstörfin og fylgja örverpinu í skólann. Aurarnir af skornum skammti en meðlagið og kerfið hjálpaði til. Ríki og bær efndu loforðin og aðstoðuðu einstæðar mæður sem best þau gátu. En lífið var samt enginn hægðarleikur.   

Pabbi hans fann sig knúinn til þess að leita á fjarlægari mið. Leiddist nýja starfið og saknaði gamla góða vinnugallans. Fór á kynningu í Norræna húsinu þar sem vellaunuð störf stóðu til boða í Noregi. Angantýr var ævintýramaður að upplagi og undirritaði ráðningarsamninginn í básnum hjá byggingaverktaka frá Bergen. Fékk sig lausan í vinnunni og hélt af landi brott nokkrum dögum síðar. Með allt sitt hafurtask. Saknaði einskis. Nema auðvitað fjölskyldunnar.    

Drengurinn naut sín vel í frístundaskólanum. Þar gat hann dundað sér í ró og næði og fengið aðstoð við heimanámið. Fannst ekki eins gaman í hreyfistundunum nema hann fengi að vera í uppáhalds búningnum sínum.Spider-Man var hetjan hans enda hafði Stúfur gefið honum mynddisk í skóinn um síðustu jól, fyrir að fara snemma í háttinn. Knútur skaut þykjustuvef úr úlnliðnum upp um alla veggi og þóttist sveifla sér á milli borða. Hann vó salt þegar kennarinn klæddi hann í dúnúlpuna og setti nýþunga töskuna á bakið. Afturþunginn varð Köngulóarmanninum að falli. „Mamma þín er komin!“