Í lausu lofti

Það var engu líkara en að byggingin teygði sig alla leið upp til himna. Út úr henni stóðu vírar í allar áttir. Steypustöðin hafði í nógu að snúast og hver hræringurinn á fætur öðrum var hífður upp í sílóinu. Raggi krani brosti sínu breiðasta með pípuna í munnvikinu og sá til þess að lögurinn færi á réttan stað. Formaðurinn stjórnaði aðgerðum eins og hljómsveitarstjóri í sinfóníu. Við horfðum hugfangnir á Stapafellshöllina rísa. Hákon var í ham eins og aðrir stórkaupmenn á Hafnargötunni. Við strákarnir spörkuðum tuðrunni á Ásbergstúninu og stálumst í appelsínulímonaði á opna gosbílnum. Á meðan mataðist ökuþórinn hjá Ragga í Tjarnarkaffi. Í næstu viku gætum við klifrað upp í bygginguna.

Það var sérstakur ilmur af grárri steypunni og naglaspýturnar lágu eins og hráviði fyrir neðan. Við príluðum upp tröppurnar og í hæstu hæðum blasti við drungalegt og dimmt lyftuop. Algerlega óvarið. Við heyrðum Bjarna bæjarvilling nálgast okkur óðfluga. Nú var engin undankomuleið. Hann valdi og kvaldi af kostgæfni. Ég var auðsjáanlega fórnardýr dagsins. Eyrnastór stubbur í rauðköflóttum brókum og ermalausum bol. Hrammar hans límdust undir handakrikana og fyrr en varði var ég í lausu lofti. Sveiflaðist fram og tilbaka yfir óvörðu opinu. Eina sem ég mundi var stríðnislegt augnaráð vargsins og gapandi djöfullegt hyldýpi nokkrar hæðir niður í enda lyftuganganna. Lofthræðslan greiptist í huga barnssálarinnar.

Það var ákveðið að brjóta upp gott dagsverk og bjóða upp til sveita. Ekið frá landamærum Sviss yfir til Frakklands. Klukkustundarakstur í átt að Mont Blanc. Tignarlegur tindurinn blasti við í sveitabænum og titringurinn og suðið í kláfnum hljómaði líkt og kranahífan á Hafnargötunni. Stefnan tekin á nálægan tind í 3842 metra hæð. Samhentur átta manna hópur sem minnti um margt á ævintýri Grimmsbræðra um Mjallhvíti og dvergana sjö. Þjöppuðum okkur í eldrauðan og einvíra hólkinn. Sortinn fyrir augunum kafaði aftur í hyldýpið og sveiflurnar í vagninum vöktu upp óværar minningar hjá Stubbnum. Hrammar hamranna teygðu sig með ógnvænlegu augnaráði í áttina að honum. Síðasta spölinn svifum við lóðrétt upp eins og sálir til himna.

Mig sundlaði á toppnum og þvarr í munni. Fikraði mig út á útsýnispallinn og náði að baða út höndunum við stefnið, eins og örlagatvennan í Titanic. Ég færði mig frá hengifluginu og fann friðhelgina miðsvæðis. Fannhvítur skriðjökullinn sveigði niður hlíðarnar og dó í botni dalsins. Greiptur í huga nærstaddra.