Í krossins bláma

Ég fylgdist spenntur með skrúðgöngunni arka niður Hafnargötuna í átt að kirkjunni. Skáta-félagar úr  Heiðabúum spígsporuðu í fagurbláum skyrtum undir lúðraþyt og trommutakti lúðrasveitarinnar. Helgi S í fararbroddi. Þjóðfáninn í öndvegi. Hvítar risablöðrur hristu sig í norðan golunni. Fánablöðrur. Heiðskír himinn og blámi yfir öllu. Bros á vör hvers manns. Mæðurnar uppáklæddar með barnavagna eða kerrur. Eftir messu hélt hersingin áleiðis með stærsta fána Íslands í skrúðgarðinn. Einhver merkismanneskja fengin til þess að draga hann að húni. Einhvern tímann ætlaði ég að vera í þessum sporum. Fjallkonan forkunnarfögur. Heimir Stígs að mynda. Krakkar að veiða brunnklukkur í tjörninni. Karlakórinn að syngja. Ræða dagsins uppfull af eldmóði og ættjarðarást. Brekkan þéttsetin.  

Kvöldskemmtunin staðsett milli Ísbarsins og Stapafells. Leikfélagið með atriði. Skemmtikraftar fengnir úr höfuðborginni. Bessi Bjarna eða Kaffibrúsakallarnir. Endalaus gleði og glaumur. Unglingahljómsveitir að spreyta sig. Andskotans bítlagarg sagði gamla fólkið. Síðhærðir og söngelskir Hljómar í seinni lotunni. Rúnni Júll í allri sinni dýrð. Dásamaður af lýðnum. „Hey, hey, heyrðu mig góða...“ hljómaði um hverfið. Rúðurnar í Hreppskassanum nötruðu. Kaupfélagið á horninu stóð þetta af sér. Opið hjá fisksalanum við hliðina á Kalla. Appelsínulímonaði og Spur í klakabökkum. Ýsa á morgun.

Og þarna liggur hann, þjóðfáni Íslands, samanbrotinn uppi í skáp. Í fullri stærð. Búinn að eiga hann í tíu ár og aldrei flaggað honum. Aldrei átt fánastöng. Nágrannar mínir á Spáni eru miklu mun duglegri að flagga sínum fánum. Draga þá að ég held aldrei niður. Eru svakalega stoltir af þeim rauða og gula. Slá Árna Johnsen alveg út í flöggun. En nú líður að þjóðhátíðardeginum okkar og aldrei að vita nema fáninn fari á loft. Í einni eða annarri mynd. Frúin þvertekur fyrir það að kaupa fánastöng. Hef látið það eftir henni öll þessi ár. Strokið honum inni í skúr í staðinn og sungið heilu ættjarðarlögin í leyni. „Hæ, hó, jibbíjei og jibbíjei“.

En fánalögin leyfa samt engan vitleysisgang. Hann má nota við hátíðleg tækifæri, opinber eða einkalífs. Á sorgarstundu dreginn í hálfa stöng. Fánann má ekki draga á stöng fyrr en klukkan sjö að morgni og ekki vera lengur uppi en til sólarlags. Fánalínan skal vera strengd. Þegar fáni er dreginn niður, er það gert með jöfnum, hægum hraða. Eftir notkun er hann brotinn í fernt eftir endilöngu og vafinn þannig að einungis blái liturinn snúi út. Gæta skal þess að hann snerti ekki jörð, vatnsyfirborð eða gólf. Ég held ég bíði með þetta aðeins lengur.