Í klóm vafans

Laugardagurinn fór í djúpköfun. Í leit að sannleikanum. Lýðræðinu og sjálfstæðinu. Lagði spilin á borðið enda algerlega óflokksbundinn. Hálfgerður vinstri hægri miðjumaður. Hef kosið næstum alla í gegnum tíðina. Glaðst með þeim á sigurstundu og líka bitið á jaxlinn í biturðinni. Fjórflokkarnir eru nú þaktir öllum regnbogans litaafbrigðum. Fjölbreytileikinn alls ráðandi og framsækni í forsvari. Það er ný dögun í þessum kosningum og ellefu flokkar í boði. Að jafnaði hefur hagur heimilanna borið hæst í baráttu þeirra fyrir fylgi og öllum finnst grasið grænna þeirra megin. Framtíðin er vissulega björt eftir messugjörðina og saman fylkjum við liði að kjörkössunum. Í sparifötunum. Með vonarneista í hjarta um bættan hag og betra líf.

Tók að sjálfsögðu kosningaprófið á netinu. Hefði verið flottara að hafa spurningarnar 63 í stað þess að hafa þær 66. Eina fyrir ígildi hvers þingmanns. Sumar voru þyngri en aðrar og þörfnuðust yfirlegu. Hugsaði með sjálfum mér, að það hlyti að vera erfitt að vera þingmaður. Erfitt að sannfæra aðra þegar maður á í erfiðleikum með að sannfæra sjálfan sig um bestu niðurstöðuna. Svo andskoti margar hliðar á sumum málum. Og einhvern veginn var enginn einn flokkur með heildarpakka fyrir mig. Að prófi loknu nálgaðist lífsstefna mín stefnu nærtækasta flokksins að þremur fjórðu hlutum. Næstu flokkar á hæla sigurvegarans voru einstaka prósentum lægri. Þýðir að stefnumál mín eiga vel við hjá ríflega helmingi framboðanna. Ekki til þess að laga valkvíðann.

En nú þurfti að taka ákvörðun. Ég fékk ekki alla vikuna til þess að velta þessu fyrir mér. Þurfti að mæta til sýslumanns síðastliðinn mánudag og kjósa utankjörstaðar. Nýta réttinn. Mér leið eins og dæmdum á leið í réttarsal. Helga og Sigga blessunarlega á sínum stað í þinglýsingunum. Skrefin upp á aðra hæð voru tregablandin. Enn í miklum vafa um hið eina sanna. Sveittur í lófunum. Krafinn um skilríki enda bæði óþekktur og óþekkur. Heilræðin um hvernig ég ætti að bera mig að voru þörf. Ægilega flókið ferli eitthvað. Af hverju er þetta ekki bara rafrænt? Slegið inn í tölvu með vírusvörn og kerfislæsingu. Hvað á ég eiginlega að gera við öll þessi umslög? Mér leið eins og sendiboða válegra tíðinda.

Á bak við tauhengið beið mín fjöldi stimpla. Með bókstöfum. Örugglega úr Eymundsson. Ljóskremaði atkvæðaseðillinn beið ákvörðunar. Mér leið eins og póstmeistara. Þrykkti með látum! Nú var að koma vali Vals í atkvæðakassann. Skyldi það ráða úrslitum? Ekki í nokkrum vafa um það.