Í eigin sjálfi

Sat á hljómleikum með Bubba haustið 2011 og fékk andann yfir mig. Skyndileg þörf til þess að skrifa. Örvun sem ég hef haldið til streitu síðan. Vona að afraksturinn sé sæmilegur. Stundum þarf svo lítið til þess að hrista upp í sálartetrinu. Nokkru síðar bárust mér óvænt skilaboð. Sat við skrifborðið mitt í vinnunni og sinnti erindum á síðasta degi ársins. Lá í símanum þegar þau bárust. Skýr skilaboð. Þakkir fyrir að vera ég. Þakkir fyrir að gefa af mér. Viðkomandi naut þess auðsjáanlega að vera í samfélagi við mig. Nafnlaus. Hugulsamt og ljúft skeyti. Hreif mig til framtíðar og hvatti til mig áframhaldandi gjafmildis. Hét því að halda því áfram. Svo miklu skemmtilegra að gefa en þiggja.

Valsarnir nú orðnir ríflega sextíu talsins. Ég hef hleypt ykkur inn í lífið mitt í nútíð og fortíð. Gefið af mér sem best ég gat. Svo ekki sé nú talað um skáldskapinn. Hlakka til hverrar stundar með ykkur og vonandi hafið þið upplifað sambærilegar stundir úr ykkar eigin lífi. Við erum nefnilega ekki svo ólík. Eigum það sammerkt að hafa upplifað sömu hlutina á einn eða annan hátt. Samsömum okkur á jarðkringlunni hvar sem er. Með ættingjum, vinum, vandamönnum eða jafnvel ókunnugum.

Ég hef blessunarlegan átt kost á því að ferðast um heiminn. Atvinna mín býður upp á ferðalög. Bogmaður í þeirri stöðu er í góðum málum. Þarf ekki stjörnuspá til þess að segja mér það. Líður afskaplega vel í vinnunni. Hef kynnst fólki frá öllum heimsálfum. Á síðastliðnu ári kynntist ég nýju fólki frá Norður- og Suður-Ameríku, Evrópu, Asíu og Afríku. Að ólöstuðum Íslendingum og Norðurlandabúum. Allt þetta fólk átti það sameiginlegt að vera elskulegt og gefandi. Upplifði það með því að sýna þeim umhyggju og hlýju og fá hana margfalt tilbaka.

Lít yfir farinn veg á síðastliðnu ári. Hef bæði hlegið og grátið. Ánægðastur með börnin mín og hvernig þau spjara sig. Stoltur og ánægður. Yndislegt að segja þeim það líka. Hreysti og heilsa eru ofarlega á blaði. Ekki sjálfsögð forréttindi. Mæti hverjum degi af æðruleysi. Veikindi, andlát, tregi og tár eru hluti af lífinu en gleymum ekki gleðinni, gæskunni, birtunni og bjartsýninni. Gefið af ykkur sem best þið getið. Réttið fram hjálparhönd. Ég leyfi góðvildinni að lýsa mér leiðina og hef uppgötvað að uppsprettan að lífsgleðinni er sáraeinföld. Ég fann hana í eigin sjálfi. Vona að þið finnið hana líka.