Hýra að sumri

Það styttist í sumarið og páskaveðrið gaf góð fyrirheit um það sem koma skal. Verð þó að viðurkenna að ég hef hvorki rýnt í garnir né heyrt í spámönnunum fyrir norðan. Það hefur þó gustað um hjá starfsmannaþjónustum fyrirtækjanna á flugþjónustusvæðinu enda skipta sumarstöfin hjá unga fólkinu hundruðum í hinum ýmsu þjónustustörfum. En eins og sunnan vindur sólu frá, birtast þau og lífga upp á vinnustaðina á meðan við hin förum í kærkomið orlof. Einhverjir stefna á sumarhúsið í sveitinni og hinir á suðrænar sólarstrendur. Kannski bara huggulegheit heima fyrir að rækta garðinn eða mála húsið.

Ég var ekki ýkja hár í loftinu þegar vinnuferillinn hófst. Bæjarvinna í boði rétt um fermingu. Þurý var minn fyrsti verkstjóri og bauð af sér góðan þokka. Gerði lífið á hrífunni eða kústinum einstaklega ánægjulegt. Gleymi því aldrei þegar ég fékk fyrstu útborgunina. Seðlar og klink í brúnu umslagi merktu mér. Maður varð eitthvað svo fullorðinn. Síðar beið mín lífið í Sjöstjörnunni. Ég stoppaði stutt við hjá Einari Kristins því ég þurfti nauðsynlega að fara til Mallorca á miðju sumri. Verkstjórinn var ekki glaður þegar hann komst að því. Sendi mig heim miklu fyrr en áætlað var og sagði að ég þyrfti ekkert að koma aftur. Aldrei. Lét mér þetta að kenningu verða.

Sem betur fer voru fleiri að verka fisk. Ég komst bæði í saltfisk og skreið hjá Jóa Gauk og í fiskverkun hjá Óla Björns í Baldri. Þar var ég settur í móttökuna með Binna Nikk og Lauga gamla. Lærði að fara vel með fiskinn og gogga ekki hvar sem er í hann. Skötuselurinn var gullmoli, jafnvel svona kjaftstór og ljótur. Stundirnar á lyftaranum gáfu þó ökuþyrstum unglingi mikið. Færa til kör og skransa aðeins á blautu gólfinu. Samstarfsfélagarnir ómetanlegir. Annar rólegheitin uppmáluð, hinn öllu málglaðari. Sérákvæði í kjarasamningi hjá Verkó það sumarið voru magaverkir af hlátri í lok vinnudags.

Næstu sumur skipti ég um starfsvettvang og mætti hálfsjö á morgnana með úfið hár og stýrur í augum á golfvöllinn. Hörður rakari og formaður Leirubænda sendi okkur í slátt á eldgömlum traktor sem sjaldan sló feilpúst. Kallaður Gustur. Svo þurfti að kantskera og raka sandglompur, bæta sápuvatni í kúluhreinsana og tæma ruslaföturnar. Snyrtimennskan allsráðandi. Vinnu lokið í eftirmiðdaginn og fyrr á föstudögum. Nema þegar hrossin sluppu úr girðingu ofan af Mánagrund. Hófaför á flötum gátu tekið allt sumarið að gróa almennilega. Eitthvað var grasið grænna hinu megin.