Hjarta bæjarins

Töluverð umræða hefur verið að undanförnu hjá Reykjavíkurborg um ímynd miðbæjarins og nánasta umhverfi þess. Hvað eigi að rífa og hvað fái að halda sér. Aldagamlar byggingar, sem reynt hefur verið að halda í horfinu með tilliti til minjaverndar og sögu, hafa hingað til verið fluttar upp á Árbæjarsafn. Ennþá eru nokkrar byggingar hingað og þangað um borgina sem hanga uppi af gömlum vana og verndunarsinnar reyna hvað þeir geta til þess að ýta burt hugmyndum um niðurrif, enda margir sem vilja komast yfir vel staðsettar lóðir til að reisa þar hótel eða nýaldarbyggingar.   

Við þurfum líka að fara að huga aftur að miðbænum okkar. Blessunarlega hafa mörg gömlu húsin á Hafnargötunni verið gerð upp og eða fengið andlitslyftingu hin síðari ár. Það er töluvert langt síðan eitthvað hefur verið rifið eða flutt úr gamla bænum. Hér úir hins vegar og grúir af alls kyns byggingarstílum og ekki hægt að tala um einhverja sérstaka heildarmynd. Duushúsin hafa heldur betur gengið í gegnum breytingar á undanförnum árum og bænum til mikillar prýði. Ég hlakka til þess að sjá hvað verði gert við „Gömlu búðina“ sem stendur á gatnamótum Vesturbrautar og Duusgötu. Vonandi verðugt verkefni sem bíður þess enda staðsett á einum fallegasta bletti bæjarins með ómetanlegu útsýni út á fjörðinn.

Hafnargatan gekk í gegnum töluverðar endurbætur fyrir nokkrum árum með hellulögn, uppbyggðum göngubrautum, listrænum hringtorgum og gamaldags ljósastaurum. Verslunareigendur hafa flestir tekið til hendinni og prýtt verslanir sínar hver á sinn hátt en jafnan í litlu samræmi við þann næsta. Húsin sem standa næst miðbænum hafa mörg hver einnig fengið ágætis andlitslyftingu en ennþá eru alltof mörg þeirra sem stinga í stúf við umhverfið og eru hreinlega ekki boðleg inni í hjarta bæjarins. Þar hafa kröfurnar um lágmarksviðhald fengið að dorma svo árum skiptir og það jafnvel löngu fyrir átakið í miðbæjarmálum. Hirðuleysi sumra því miður algert. Hvet eftirlitsaðila bæjaryfirvalda til þess að grípa til viðeigandi ráðstafana.
Ég vildi óska þess að geta verið enn stoltari af ásýndinni þó vissulega hafa mjög margt verið gert. Spurning hvernig við getum haldið áfram að gera enn betur til að snúa þróuninni okkur í hag. Miðstrætið okkar þarfnast frekari aðhlynningar og framtíðarsýnar. Nú fer í hönd tónlistarveisla fyrir okkur öll um helgina og eflaust margir sem sækja okkur heim. Bæjarbragurinn og menningarlífið stendur sem áður í miklum blóma en vonandi verður „kransæðin“ fljótlega blásin og fóðruð. Það stuðlar að eðlilegri hjartslætti bæjarbúa.