Hitti naglann á höfuðið

Hrekk upp með ónotum. Hvar er ég eiginlega?  Klæddur vaðmálsfötum í eymdinni. Umhverfið kalt og hráslaralegt. Ég á ekki heima hérna. Ég lifi á tuttugustu og fyrstu öldinni. Hvurn andskotann er ég að gera hérna? Umhverfið hrörlegt og óaðlaðandi. Staddur einhverstaðar á átjátundu eða nítjáundu öld, klæddur þessum líka djöfulsins druslum! En þetta er bara draumur, sem betur fer. Maður lætur sig hafa það þegar svoleiðis ber undir. Ég sný mér á hina hliðina og óska þess að draumurinn fari annað. En hann kemur aftur. Blautur og kaldur.


Ég horfi framan í fólkið sem á verulega bágt. Það á ekkert annað en hrúgu af nöglum. Angistin skín úr augum þeirra allra. Grátbiðja um hjálp. Það verður ekki um villst að þörfin er mikil. Stingandi. Biðja mig aumkunnarverðum augum að koma eigum sínum í lóg. Einhver verðmæti.  Verðum að eiga fyrir mat. Þetta er það eina sem þau eiga. Getur þú komið þessu í not eða verð? Gerðu það. Tárvot augu þeirra glitra í sólinni og ég finn innra með mér að ég verð að gera eitthvað í málinu. Hjartað í mér segir mér að gera eitthvað.


Þau leggja allar sínar eigur í sandinn. Ströndin víðfem og svöl. Á Vestfjörðum. Hrúga af nöglum. Af öllum stærðum og gerðum. „Komdu þessu í verð, við eigum ekkert annað!“ Ég lofa að „sortera“ naglahrúguna. Sé fram á að geta hugsanlega hjálpað til. Litlir, stórir, beinir, bognir, rygðgaðir, tærir, svartir, silfurlitaðir. Hrúgan stór og auðvelt að finna góðu naglana frá þeim slæmu. Finnst ég geta unnið verðmæti út úr hrúgunni. Tekst ætlunarverkið. Brosi framan í fjölskylduna. Vakna við ónotin í hundunum. Geltið rýfur þögnina og ég sný mér á hina hliðina. „Andskotans ónæði er þetta“ kalla ég stúrinn og pakka koddanum í hálsakotið.


Hugurinn vaknaður en líkaminn kallar á meiri hvíld. Ég drattast fram úr og brosi framan í heiminn. Spegillinn eitthvað skrýtinn. Andlitið ekki eins og það á að vera. Draumráðningarbókin í augnsýn. Græna bókin. Á borðinu. Hvað þýðir þetta naglavesen eiginlega? Ég flettir upp  í henni. Forvitinn. Nagli getur merkt  sársauka, hann getur líka þýtt að eitthvað er endanlegt! Nei, mig langar ekki í það. Hrúgur af ryðguðuðum og bognum nöglum tákna leiðinlegt umtal. Nýir naglar eru fyrir ágóða. Leiði leiðindin fram hjá mér og ákveð að nýta mér ágóðann. Jólin eru framundan.
Gleðilega hátíð!