Heima er best

Það var gott að fara í langt frí. Slökkti á öllu sem heitið gat. Farsíminn smáfölnaði með öllum sínum hringingum, tölvupóstum og skilaboðum. Kvikindið svaf. Á meðan vissi ég ekki neitt hvað var um að vera og hafði engar áhyggjur af því. Sleikti sólina og las. Kveikti ekki á sjónvarpi í tvær vikur og vissi þar af leiðandi ekkert um heimsmálin. Hvað þá óróann í heimalandinu. Fór út að borða á kvöldin eða grillaði heima eins og greifi. Notalegar kvöldstundir á stéttinni undir mánaskini. „Crikketin“ kurruðu sitt kvöldhjal í trjánum og myrkrið umvafði nágrennið. Ómurinn af bæjarlífinu lék um næturkyrrðina og endrum og eins heyrðum við söngvara hornbarsins kveða upp raust sína. Breskar ballöður.


Ég kvaddi nágrannana með virktum. Þrjár vikur í allt öðru og rólegra umhverfi, án áreitis eða ádeilna við guð og menn. Við lifðum í allt öðrum heimi. Vöknuðum níu á morgnana, heilsuðumst og virtum hvors annars friðhelgi fram undir miðjan dag. Þá tóku við umræður um lífsins lystisemdir eða lesti. Blessunarlega á ensku. Spánverjarnir sáu um sína hlið mála. Ræddum allt milli himins og jarðar. Náðum vel saman. Eins og vinir. Sögðum hvorum öðrum allt. Eða næstum því. Léttum á böli og bölmóð og kættumst yfir knattspyrnu eða knæpum. Breski ellilífeyrisþeginn var vinur minn og þáði vinskap á móti. Girðing á milli. Mörkin skýr.


Nú var ég á heimleið. Fyrir aftan mig í flugvélinni sat sjóari af gamla skólanum, sem kallaði ekki allt ömmu sína. Kvartaði sáran yfir rúmmáli sætisins sem hann fékk. Taldi það vera sniðið fyrir tískudömur eða kynlega kvisti. Gæti aldrei og hefði aldrei sofnað í flugvél. Sniðugur á alla kanta. Andvarpaði og umlaði skömmu eftir flugtak og rumdi í svefni langleiðina að lendingu. Fylgdist ekki með sólarupprásinni íslensku á Austurlandi. Konan í sætaröðinni við hliðina fékk þrjú sæti út af fyrir sig. Lagðist til hvílu fljótlega með höfuðið að gangi. Hraut lungað úr leiðinni með sætisarm yfir enni. Hvein í hvílu sinni. Dauðöfundaði hana.


Rassinn minn var dofinn og lúrinn því enginn. Sólarhringur frá vöknun að svefni. Rúmið mitt. Mjúkt og ljúft tók það á móti mér. Eins og rauður dregill að hætti þjóðhöfðingja. Umhverfi og hlýja landsins umlukti mig að nýju. Alltaf gott að koma heim. Áttar þig á því að hér áttu heima. Og hvergi annars staðar.