H-appið í heilann

Það er hreint út sagt ótrúlegt magn upplýsinga sem streymir inn í vitundina daglega. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Útvarp, sjónvarp, símar eða tölvur halda okkur upplýstum á háhraða og af ógnvænlegri ákefð. Stundum allt of mikilli. Fréttir að morgni eru jafnvel úreltar í eftirmiðdaginn. Fréttaskot í kvöldfréttatíma er stundum ekki boðlegt í tíufréttirnar. Tölvur hafa almennt þriggja ára líftíma en forritin í þeim úreldast jafnvel á sama árinu. Símtækin þróast hins vegar svo hratt að það gefst ekki einu sinni tími til þess að gorta sig á bæjunum og telja sig vera með það nýjasta í höndunum, þegar annað og meira framandi er komið í framstillingu.

Sjálfur er ég afskaplega gamaldags í nýjabruminu. Á erfitt með að tileinka mér nútímatæknina. Sumir segja að tangarhaldið mitt gangi út yfir allt velsæmi. En jafnvel þó ég fái nýjar græjur í hendurnar, þá nýti ég mér einungis það allra einfaldasta. Gef mér sjaldan tíma til þess að lesa leiðbeiningarnar eða biðja um aðstoð annarra til þess að læra inn á framtíðina. Ég er svolítið í gamla núinu, sem varð gamaldags fyrir fimm árum. Ekki svo slæmt en alls ekki viðræðuhæfur innan um snillingana sem ég umgengst.

En svo veltir maður fyrir sér hvað taki við af þessu ferli þegar við lítum lengra inn í framtíðina. Ég átti gott samtal við félaga minn ekki alls fyrir löngu. Spurði hann um hver þróunin yrði í þessu. Faldi í leiðinni Blackberry símann minn sem virkaði eins og steingervingur við hliðina á skjásímanum sem hann góndi á af mikilli áfergju. Vel að merkja, þá er þetta vel menntaður maður og ákaflega háður tækinu á hverjum einasta degi ársins. Hann hafði ákveðnar skoðanir á því hver framtíðin væri í þessum efnum. Taldi að tölvupósturinn myndi deyja út innan nokkurra ára. Mér varð hverft við þar sem um það bil helmingur, ef ekki meirihluti vinnudagsins, snýst einmitt um þetta mikilvæga upplýsinga- eða spurnarform.

Hann sér framtíðina fyrir sér í augunum og heilanum. Við verðum komin með upplýsingarnar sjónrænt á sömu sekúndunni og þær verða til. Búið að skjóta örgjörva inn í heilann sem nemur allar nýjustu upplýsingar sem við þurfum á að halda. Hugræn skilaboð munu berast manna á milli einungis með því að snúa vinstri úlnlið tvisvar, hreyfa hægri stóru tána þrisvar upp og niður eða bara ulla fjórum sinnum. Kallar þetta H-appið í heilann.