Góða skapið og glasið

Nú veit ég hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. Jafnvel þó ég hafi minnkað eilítið frá síðustu mælingu. Mig dreymir um að búa í norðurhéruðum Spánar eða jafnvel á Ítalíu, enda fólkið þar í lægri kantinum. Sé lífið fyrir mér á fallegum búgarði, þar sem tilhlökkunin um ánægjulega kvöldstund, með lystisemdum vínbænda, yljar kroppinn. Líkt og með manneskjuna, þá þarf að bera virðingu fyrir öllum vínum til að geta notið fjölbreytileikans. Þetta eru líka nýir nágrannar eftir allt.


Get eflaust kraflað mig fram úr tungumálinu með íslenskuna að vopni. Býð þeim að gerast ókeypis erlendur vínsmakkari. Vín beint frá bónda veitir eflaust ómælda ánægju ef maður veit hvað maður er með í höndunum. Það má þó heldur ekki gera sér of háar hugmyndir fyrirfram, en gæti hins vegar komið skemmtilega á óvart þegar fram líða stundir. Súrt eða sætt? Þykkt eða þunnt? Þetta vita þeir náttúrulega eins vel og ég!


Að sjálfsögðu keyptu þeir hugmyndina og nú heyri ég nánast snarkið í nautasteikinni, sem frúin keypti af slátraranum á markaðnum. Best að skella á sig Armani ilminum og sjarmera mína upp úr skónum. Eftir dýrindis máltíð gríp ég í vínbiblíuna, fullur eftirvæntingar yfir því sem hafa þarf í huga fyrir smakkara. Mér fallast hendur. Búinn að gera nánast flest það sem ekki á að gera. Borða of þungan mat, úða á mig rakspíra og hvað ekki. Það voru aðeins tvö atriði eftir á listanum sem ég gat hakað við að væru í lagi. Góða skapið og glasið. Bara ekki svo slæmt eftir allt. Ég afsakaði mig með því að ég væri nú enginn fagmaður. Nýkominn! Sannfærði þó sjálfan mig um að allra mikilvægasta atriðið á listanum væri góða skapið og af því ætti ég nóg af. Að smakka vín í slæmu skapi er eins og að... æji, þið vitið hvað ég á við!


Blessunarlega bjargaði betri helmingurinn hinu atriðinu. Við köllum það „baðkarið“, sem þarf að vera til staðar, óskreytt, óskorið og helst í laginu eins og túlípani. Já, það eru mikil vísindi á bak við alvöru vínsmökkun. Túlípaninn var í hendi með guðaveigum. Vakna upp við vænan draum í víkinni grænu, með glas af dýrindis ítölsku Amarone og tel mig vera miðlungs fagmann í greininni. Lifi þó í voninni að draumurinn rætist.