Glötuð sál

Hann var spenntur fyrir helginni. Föstudagurinn leið á ljóshraða og fyrr en varði var hann í afgreiðslunni í Ríkinu. Kunnugleg andlit komu fyrir sjónir í hverju horni en suma þekkti hann alls ekki. Fólkið talaði útlensku. Hann kom því ekki fyrir sig hvaðan það var og skipti hann engu máli. Hann var að hugsa um sjálfan sig og kvöldið framundan. Í hverju hann ætti að fara? Jakkafötum eða bara þægilegum gallabuxum og sportjakka. Það var ekki oft sem hann fór út á lífið núorðið en þegar svo bar undir, langaði hann til þess að líta vel út. Grásprengt hárið var eilítið úfið og þykkt en nú var allt of seint að fara í klippingu til Ragga. Hann yrði bara að setja gel í hárið og vona að það héldi.

Bjórinn var volgur en góður. Rann niður þurrar kverkarnar. Hann fann hvernig áhrifin liðu upp í höfuð og út í líkama. Áhyggjur hversdagsins urðu að engu. Framtíðin þokkalega björt. Hann hafði náð athygli á vinnustaðnum fyrir fádæma góða frammistöðu og nú lá leiðin eflaust upp á við. Hann saknaði þó fjölskyldulífsins. Konan farin og börnin með. Hún hafði gefist upp á honum. Labbaði bara út einn daginn án þess að kveðja. Hann saknaði barnanna og umstangsins í kringum þau. Það þýddi ekkert fyrir hann að rembast eftir á. Hann hafði sjálfur fyrirgert öllum rétti sínum í ölæði og rugli. Hann vissi það mæta vel hvað hann hafði gert og tók afleiðingunum.

Vinnustaðagleðin stóð stutt. Hann drakk óvenjumikið og var málglaður. Ofmetnaðist í sjálfumgleðinni. Stelpurnar forðuðust hann og gömlu vinirnir sátu uppi með gamlar tuggur um fyrri afrek. Höfðu heyrt þær allar áður. Fortíðarþráin átti ekki síður hug hans en framtíðin. Hann ætlaði sko að sýna öllum að hann væri maðurinn. Félagarnir sneru sér undan um leið og hann gúlpaði enn einum bjórnum niður. Hann var bæði orðinn þvoglumæltur og leiðinlegur. Kjagaði milli borða og lét öllum illum látum.

Leigubílstjórinn þekkti hann vel og kom honum niður í bæ. Hafði margsinnis ekið honum í gegnum tíðina. Vorkenndi honum. Sá hann hverfa inn í þvöguna. Enn einu sinni. Ljótan hafði heltekið andlitið og baráttan um sjálfsvirðinguna þvarr dag frá degi. Hrókur alls fagnaðar í hópi glataðra sála sem hittust helgi eftir helgi. Á sama stað. En nóttin var döpur. Daprari en nokkurn tímann áður.