Geðveikt gloss

Hún sat í hnipri inni á heilsugæslustöð og grét sáran. Tárin streymdu niður vangana í taktföstum bunum og það var sem lífið væri að renna burtu frá henni. Hún réði ekki við tilfinningarnar. Þær komu djúpt úr iðrum sálarinnar. Skyndilega hvolfdist myrkvið yfir albjarta ganga salarins og framundan sér hún svartholið eins og gímald, gleypa allt sem fyrir varð. Hún sveif um í lausu lofti og horfði á lífið fjara hægt og hljótt útundan sér. Henni leið vel að losna úr þessari vesælu veröld, sem hafði undanfarnar vikur kvalið hana af kvillum sem hún þekkti ekki. Kvíða og innantómum trega. Ónotum sem komu aftur og aftur. Hún bað til Guðs með krepptum hnefum um lausn til að lina þjáningarnar. Hjálpaðu mér áður en það er orðið um seinan.

Læknirinn kallaði upp nafnið hennar yfir biðsalinn og við það hrökk hún aftur til sjálfs sín. Meðvituð þrá hennar eftir aðstoð rann ómeðvituð framhjá sérfræðingnum. Hann skrifaði meira að segja óhrjálega á lyfseðilinn og afhenti henni bleðilinn með þeim huggunarorðum að þetta liði hjá eftir nokkra daga. Pillurnar myndu virka fljótlega, tvær að morgni og ein að kvöldi. Eftir viku dygði ein að morgni og ein að kvöldi. Hún fór að ráðum hans og fylltist vonarneista. Hún vildi ekki að börnin vissu hvernig henni liði og því bað hún eiginmanninn reglulega að sinna þeim þegar hún fann dýfurnar koma. Lyfin virkuðu engan veginn eins og hún hafði vonað. Á tímabili hélt hún að hún gæti ekki meir.

Hún barðist um á hæl og hnakka í eigin sjálfi. Viðbrögð umhverfisins voru ámátleg. Fólkið ýmist mergsaug það sem eftir var af neistanum eða hrökklaðist undan í flæmingi. Hvernig átti annað að vera, þegar sjálfið var ýmist ofurhlýtt eða jökulkalt. Leitin að jafnvæginu tók óratíma. Hún hentist á milli sérfræðinga sem otuðu að henni hverri pillutegundinni á fætur annarri. Afgreidd eins og hver önnur móðursýkisalda, sem gekk inn og út úr fjöruborðinu. En henni fannst hún vera ein báran stök. Var staðráðin í því að finna leiðina til betra lífs.

Sjúkdómurinn var kominn til að vera en til þess að lifa með honum þyrfti hún að finna einhvern sem gat hlustað á hana. Einhvern sem gæfi sér tíma í að greina sjúkdóminn. Greiða úr flækjunni. Að lokum fann hún björgina. Náði með tíð og tíma að losa um tangarhaldið, sem hafði haldið henni í heljargreipum óttans allt of lengi. Fallega sálin brosti aftur sínu blíðasta. Með geðveikt gloss á vörum.