Fullkominn ég

Hef stundum velt því fyrir mér, hvernig það væri að eiga hið fullkomna líf. Vera fullkominn að því leytinu að geta uppfyllt alla sína drauma og þrár. Hef það á tilfinningunni að ég sé búinn að rembast við eitthvað sem aldrei verður. Sumt er vissulega hægt að framkvæma án mikilla erfiðismuna en annað hefur ekkert með þig að gera. Ytri aðstæður er viðkvæðið. Draumarnir blunda bara á meðan og „hold“ takkinn er frosinn fastur. Kemur mér ekki úr jafnvægi, þetta lagast allt saman með tíð og tíma. Missi hvorki hjartslátt eða svefn yfir því. Lífið er alltof skemmtilegt til þess að vera að velta sér upp úr einhverju sem maður fær ekki breytt.


En hvernig verður fullkomnunaráráttunni fullnægt? Það er nefnilega svo auðvelt að hálffylla hamingjuglasið án mikilla erfiðismuna. Hamingjan fæst ekki keypt, alveg sama hversu mikla peninga sem maður á. Verstu árin í mínu lífi voru þegar ég átti nóga peninga, meira en ég þurfti á að halda. Réði illa við taktinn og hjartsláttartruflanir í sinni víðustu mynd gerðu vart við sig. Þeirri stund fegnastur þegar ég komst aftur niður á jörðina. Örlögin gripu í taumana og réttu stöðuna af. Ytri aðstæður? Nei, sennilega verndarenglar sem vaka yfir allt um kring og vísa manni aftur á rétta braut. Ekki í vafa um það. Guði sé lof, hallelúja!


Það er samt vert að skoða möguleikana á fullkominni hamingju. Líf og heilsa trónir þar hæst. Það er ekkert sjálfsagt að vakna á hverjum morgni án verkja eða kvilla. Sjö, níu, þrettán. Hreyfingin er dýrmæt og það að geta nánast gert það sem hugurinn girnist, er guðsgjöf. Ég hef gaman af golfi, veiði, dansi, línuskautum, göngu og sundi. Stunda þetta bara í alltof litlum mæli. Breytt hugarástand er allt sem þarf. Tíminn er afstæður og þú einn ræður því hvernig þú ráðstafar honum. Voðalega gott að gefa af sér líka í leiðinni. Njóta samverunnar með einhverjum utan veggja heimilisins. Foreldrum, systkinum, frændfólki, vinum eða kunningjum. Að ógleymdu samneytinu við vinnufélagana. Vinnan er gulls ígildi. Bara gleyma sér ekki í henni.


Börnin er okkur allt. Framtíð þeirra og vegsemd er það sem maður lifir fyrir. Sjá þau vaxa og dafna í lífsins ólgusjó. Stofna eigin fjölskyldu, koma sér fyrir, ferlið endurnýjað með góðlátlegum ráðleggingum og umhyggju foreldranna. Ekki gleyma afa og ömmu. Þar liggur viskubrunnurinn.