Frúin fimmtug

Haldið af stað í sveitina. Rangárhótelið eins og vin í eyðimörkinni. Seðjandi veiðiáin rann um nágrennið og ég hugsaði til frænda minna og bræðra. Eitt augnablik. Tekið á móti okkur með kostum og kynjum. Glæsilegt herbergið umvafði elskuna og hún skaut sér út á pall til að meta aðstæður. Framundan notalegheit og dekstur. Ég tilkynnti henni að heilsunuddið yrði klukkan fimm. Ætlarðu ekki líka að fara í nudd? spurði hún dreymandi.  Nei, þú átt afmæli, elskan mín, þú færð báða tímana og átt þá svo sannarlega skilið. Leit við á barnum og bað um hvítvín handa frúnni. Barþjónninn dró upp bestu flöskuna og skenkti í glas. Ég fór glaðhlakkalegur inn á herbergi númer 12 og skálaði við afmælisbarnið. Undarleg svipbrigði og óafturkræf ummæli tóku af allan vafa að þjónninn hafði rangt fyrir sér.

Það er eitthvað aukabragð af þessu víni, sagði hún súr á svipinn og um leið fékk ég í magann. Það besta er auðsjáanlega ekki nógu gott! Smakkaðu bara, sagði hún ábyggileg og rétti mér glasið. Ég fæ bara nýtt, sagði ég og brosti í gegnum tárin. Þjónninn varð skömmustulegur og sturtaði óbragðinu í vaskinn. Ég hefði átt að vita betur að bjóða henni eitthvað betra, sagði hann ábúðafullur á svipinn. Hérna færðu eðalvín sem Torres sjálfur blandaði handa frúnni sinni á afmælisdaginn. Þessi klikkar ekki og fyrirgefðu mér enn og aftur.

Það voru fáir í matsalnum þegar við komum uppá-klædd til afmælisveislunnar. Fólkið streymdi inn og okkur leið eins og Íslendingum í útlöndum. Ég taldi fimmtíu ferðamenn. Norðurljósin heilla, sagði Friðrik eigandi um leið og hann bauð góða kvöldið og var þakklátur að finna landa sína í mat. Þetta eru meira og minna allt saman Bretar þessa stundina, sem bíða eftir því að sjá himinn loga. Verst hvað það er mikill dumbungur þessa stundina en ég vek þá í nótt ef skýjafarið breytist eitthvað.

Forrétturinn var hreint afbragð. Haf og hagi smakkaðist eins og best verður á kosið. Þjónustan í hæsta gæðaflokki. Kertaljós og kósý. Eftirrétturinn inni á herbergi. Setið og spjallað um heima og geima. Mín alveg í essinu sínu. Björt og falleg. Við sváfum til hálf ellefu. Misstum af morgunmatnum, sem átti víst að vera betri en kvöldverðurinn. Ró og friður í sveitinni. Árniðurinn og angurværðin sefaði sálir okkar beggja. Allir mínir afmælisdagar verða hér eftir fimmtugsafmælisdagar, sagði hún glaðbeitt og brosti inn í framtíðina.