Flottur jakki

Það var aldeilis flott afmælisboðið sem ég þáði um síðustu helgi. Hvorki meira né minna en eitthundrað ára afmæli sem verið var að halda upp á. Reyndar skiptu hjónakornin og gestgjafarnir árunum samviskusamlega jafnt á milli sín, eins og öðru sem þau hafa deilt um ævina. Hjartnæm ræðuhöld gáfu tóninn í ákaflega hlýlegu samkomuhúsi í Garðahreppi. Dæmigerða vísitölufjölskyldan, með afkvæmin af sitt hvoru kyninu, fékk þar að auki að hlýða á íslenskar og ítalskar aríur sungnar til sín af innlifun. Veitingar af bestu gerð vöfðu umgjörðina hlýju. Samheldni og samvinna aðstandenda létti undir með velgjörðinni. Skilur alltaf eftir ljúfar minningar.

Uppábúið mætti fólkið á Álftanes, í nágrenni Garðakirkju. Kvenfólkið einstaklega sumarlegt og litríkt. Á allan hátt. Karlarnir öllu einfaldari í klæðaburði. Við erum svo andskoti fastheldnir margir hverjir. Miðaldra karlar mæta yfirleitt að sumarlagi í stökum jökkum, einlitri eða köflóttri skyrtu, gallabuxum og svörtum skóm. Einhverjir þó fastir í sínum jakkafötum eins og ég, í fráhnepptri skyrtu eða með slifsi um hálsinn. Slaufurnar eru þó aftur að komast í tísku, litlar og nettar og sumar meira að segja áfastar skyrtunum. Hef séð ungu herramennina skarta slíkum fylgihlutum endrum og eins. Ákveðinn sjarmi yfir þeim stíl. Tweed-jakkar á uppleið eins og í „denn“. Svarthvítir.  

Diskóið dundi um hreppinn og hélt veislugestum uppteknum í syngjandi sveiflu. Merkilegt hvað þessi tónlist hreyfir við mörgum og hrífur út á gólf. En fjörið tók enda og jafnvel þó fólkið teldi sig vera á  höfuðborgarsvæðinu, var sem leigubílaflotinn rataði ekki út á nes. Biðin reyndi á þolinmæðina og ökuþórinn ég sá aumur á vinunum. Sætin í kerrunni voru hins vegar allt of fá miðað við búkana. Ég tók áhættuna á því að koma þeim á áfangastað til næstu sveitar. Að ofhlaða bíl var eitthvað sem ég hafði ekki gert áður. Ég auðvitað dauðskammaðist mín á eftir þegar ég skoðaði sektargreiðsluna, sem ég hefði fengið, hefði ég verið gripinn. Svo ekki sé nú talað um slysahættuna ef eitthvað hefði brugðið út af.

Stemningin þá stundina leyfði mér allsgáðum að hugsa órökrétt og treysta um of á eigið lán. Alls ekki til eftirbreytni. Ég lofaði sjálfum mér að gera slíkt aldrei aftur, enda gera slysin ekki boð á undan sér. Förum að öllu með gát inn í sumarið og virðum lögin og reglurnar sem okkur eru settar. Það eru góðar og gildar ástæður fyrir því og þú ert miklu flottari jakki á eftir.

Valur Ketilsson.