Fjöru fjör

Við guttarnir ákváðum að fara niður í fjöru og finna okkur eitthvað að gera. Fjöruborðið neðan við Hafnargötuna var eitt af mörgum leiksvæðum miðbæjarins enda æði oft forvitnilegt og dularfullt rusl sem rak á land eftir veðravítin. Brimið kvöldinu áður hafði lamið dyggilega á bakdyrnar á tukthúsinu og eflaust vakið alla rónana, sem fengið höfðu næturgistingu hjá Sigtryggi löggu. Kyndill, Lindin, Ísbarinn og Stapafell fengu öll að finna fyrir stórstraumnum og voru vel þvegin á afturendanum eftir hvítflissið. Litla bryggjan þakin þara upp á sig miðja.

Við fundum fljótt dautt smáhveli sem skolað hafði á land. Potuðum í ilseigt skinnið og skoðuðum pöddurnar sem lögst höfðu í sárin. Kalli stakk upp á því að við jöguðum tennurnar úr kvikindinu og gerðum okkur hálsmen úr þeim. Alveg eins hálsmen og Blakki gekk með. Það var nú reyndar tönn úr hákarli, sem hann átti að hafa veitt sjálfur. Með berum höndum. Pant fá þessa tönn!, kallaði Eddi bróðir Mike og hófst handa við að berja í kjaftvikið á skepnunni með spýtu. Útundan húsveggjunum stóðu ræsin galopin og skólpið skilaði sér áleiðis til sjávar. Á fjöru gat það tekið sinn tíma fyrir góssið að finna réttu leiðina út. Við urðum að passa okkur á því að misstíga okkur ekki á hálum steinunum. Það gat þýtt óþverra og ullabjakk á fallegu Nokia stígvélin með endurskinsröndinni.

Stóra ræsið út úr Aðalgötunni stóð galopið til að byrja með enda stórtækar framkvæmdir í gangi. Eilífar sprengingar og gröfugelt. En svo settu þeir rimla í ræsisopið að lokum. Þeir minnstu gátu þó stungið sér inn á milli þeirra og farið með vasaljós langt upp eftir götunni. Það var ekki gert nema allir löggubílarnir væru úti enda stóð opið svo gott sem beint út frá stöðinni. Í fjörunni ráfuðu rottur um alla steina, sumar eins og kettir að stærð. Við grýttum þær ef við gátum en einhvern veginn sáu þær við okkur. Smeygðu sér í allar holur og skjól sem hægt var að finna.

Litla ræsið úr Tjarnargötunni bauð ekki upp á ferðalög með vasaljósi. Við tíndum úr því smokkana með prikum og lögðum þá í röð á píramídalagaða mjólkurgrind úr Kaupfélaginu. Töldum upp á tíu og giskuðum á hvaðan þeir kæmu. Úr Hreppskassanum! hrópaði Nílli hróðugur og veifaði einum vænum, eins og fána á stöng. Eftir ágiskanir og úrskurði fékk gúmmíið flugferð á mjólkurgrindinni áleiðis til hinstu hvílu. Í hina votu gröf. Eða svo töldum við.