Fjalir flugsins

Ertu ekki sonur hans Kedda? spurði hún alúðlega um leið og hún staldraði við á heilsugöngunni um miðbæinn. Ég leit upp úr miðjum grasslætti í föðurhúsum og jánkaði kalli þessari góðlátlegu konu sem ég þekkti í sjón og úr umræðu en hafði aldrei talað við áður. Nei, ég er ekki elstur, ég er yngstur, var svarið við næstu spurningu um leið og ég áttaði mig á því að ég væri orðinn miðaldra eins og hinir bræðurnir. Minnst miðaldra vonandi. Spurningarnar héldu áfram í sumarblíðunni og fyrr en varði vorum við farin að spjalla um gömlu flugstöðina, þar sem hún hafði alið manninn síðustu árin á vinnumarkaðnum. Þú ert þá bara ég, sagði hún hlæjandi um leið og við höfðum rætt starfsvettvanginn. Já, ég er að fóstra lömbin sem þú aldir svo vel, sagði ég með stolti og reisn. Ófáar sögurnar af samstarfsfólkinu voru dregnar fram í dagsljósið. Um leið rifjaði ég upp skemmtisögurnar í huganum sem sagðar höfðu verið um hana. Bið að heilsa kvikindunum, sagði hún brosmild og hélt sína leið.

Eftir sat upplifunin sem ég varð aðnjótandi að fyrir skömmu, þegar ég gekk um gólfin í nöturlegum sölum gömlu byggingarinnar. Í hverju skúmaskoti mátti heyra ys og þys genginna kynslóða. Teppalagðir strangar úr fínustu efnum grúfðu yfir biðsalnum, þar sem barinn hafði svalað þyrstum Íslendingum á leið sinni á vit ævintýranna. Taktfast göngulag flugfreyjanna mátti heyra á göngunum og ljómi fortíðar kímdi í hverjum krók og kima.

Gamla flugstöðin geymir ófáar minningarnar hjá okkur Suðurnesjamönnum enda var hún bæði fjölmennur vinnustaður og vinsæll. Þarna rann lífæð landsmanna í gegnum reisulegt kofaskriflið áleiðis til útlanda. Hýsti um leið skrifstofur og aðstöðu Fríhafnar og tollvarða, að ógleymdu flugafgreiðslufólki flugrekenda. Banki allra landsmanna átti sinn skika í hofi Íslands. Vaktirnar stóðu sína plikt í sólarhringsopnun og runnu stundum saman í eina sæng í tíma og rúmi. Brjálað að gera þegar flotinn rann í hlað með ýlfrandi hreyfla og andstutta útlendinga innanborðs.

Ég stoppaði stutt við í Flugleiðafjörinu en nýtti mér útrásarþörfina þeim mun betur á þeim tíma. Starfið mótaðist af metnaði og hvatti mig ungmennið til aukinnar víðsýni. Ófáar utanferðirnar í allskyns erindagjörðum. Afskaplega góður vinnuveitandi í alla staði, svo ekki sé meira sagt. Starfsemin óx og dafnaði og ég kvaddi hana um sama leyti og yfirvöld byggðu henni ákjósanlegri íverustað á Miðnesheiðinni. Fimmtán árum síðar fann ég flugstöðvarfjölina mína aftur og svei mér þá ef sagan er ekki þarna ennþá. Bara nýir leikarar.