Fimmtudagsvals: Aleinn heima


Ég horfði björtum augum til helgarinnar. Frúin pakkaði niður farangri fyrir helgarferð með vinkonunum en af magninu að dæma, leit út fyrir að hún kæmi ekki heim fyrr en eftir viku. Jafnvel síðar. Ég var ekki neitt svakalega ósáttur við það að hún væri að fara frá mér. Hún hefur beðið eftir mér alla daga ársins og sjaldnast hef ég komið heim á réttum tíma. Ofast seint og um síðir. Ég samgleðst henni því alltaf þegar kvennafrí er annars vegar. Svo mikil tilhlökkun og umstang í kringum þau. Allt skipulagt í þaula. Nema heimferðin. Hún dregst yfirleitt á langinn. Svo gaman og auðvelt að gleyma sér. En yfirleitt er búið að skipuleggja næstu ferð áður en haldið er heim á leið. Meiri guggurnar.


Ég sá fyrir mér langa helgi. Einn með sjálfum mér. Fjarstýringin á sjónvarpinu mín og húsbóndinn á heimilinu réði því hvenær yrði þrifið. Það hljóp hins vegar hundur í hundinn, þegar ég sagði honum frá því að við yrðum einir heima um helgina. Engin „amma“ heima. Ekkert skipulag á morgunvaktinni. Upplýsingarnar voru honum ofviða og hann hljóp eins og byssubrenndur undir rúm. Kom lítið undan því eftir það. Saknaði skipulagsins. Helvítis hávaði líka í græjunum þegar „amma“ er ekki heima.


Merkilegt hvað sambúðin getur verið sérstök. Þú lifir og hrærist í ákveðnu kerfi alla daga ársins sem báðir aðilar eru sáttir við. Jæja, flestir. Deilumálin grunn ef einhver og formið aflagast lítið nema e.t.v. til hins betra. Áhyggjulaus ævikvöld og bjartir morgnar. En svo þarf maður stundum að brjótast út úr rammanum í eftirmiðdaginn og aldrei betri tími til þess en einn með sjálfum sér. Ég tala meira við sjálfan mig og hugsa upphátt ef engir eru á ferli. Svona eins og þeir sem eru með þráðlausa símtólið í eyrunum út í búð. Mala eins og enginn sé morgundagurinn. Einkennilegur andskoti.


En svo verður maður leiður á því til lengdar. Fer að sakna formsins, þægindarammans sem manni líður svo vel í. Er „amma“ ekki að koma? Klukkan hvað sagðist hún ætla að koma heim? Hundurinn finnur það á sér þegar hún nálgast Fitjarnar. Mér bregður oftast þegar hún gengur inn um dyrnar. En skipulagið er komið á sinn stað, allir glaðir og kátir eftir viðburðaríka helgi. Hundurinn finnur sitt fleti og umlar af ánægju.