Fannhvítar fantasíur

Það eru þó nokkur ár síðan ég hætti að fá Moggann inn um lúguna. Málið var tekið fyrir á niðurskurðarfundi fjölskyldunnar, þegar börnin voru þrjú í heimili og útgjöldin í hámarki. Valið stóð á milli þess að kaupa málgagnið eða morgunkornið. Nú þegar börnin eru farin að heiman hefur Dabbi ekkert fyrir því að hringja og spyrja hvort mig langi aftur í snepilinn. Sennilega upptekinn af öðru. Ég dett þó af og til í lestur blaðsins þegar færi gefst. Uppáhaldið er gamla lesbókin, sem heitir Sunnudagsmogginn í dag.

Þar er afskaplega skemmtilegur dálkahöfundur sem heitir Kristín Heiða og pistillinn Stigið í vænginn hefur oftar en ekki náð athygli minni. Minnir um margt á Carrie, dálkahöfundinn úr Beðmálum í borginni, sem reifar fantasíurnar úr borginni sem aldrei sefur. Þar mynda vinkonurnar fjórar óborganlegt teymi sem tvinnar og táldregur hvern karlpunginn á fætur öðrum í vef löngunar og losta. Annar viðlíka þáttur er Aðþrengdar eiginkonur, sem bralla ýmis launráð og vert er að læra af. Ég skal viðurkenna það, að ég hef lúmskt gaman af svona þáttum og horfi mun oftar en frúin á þá. Að ógleymdri Nigellu meistarakokki, sem matbýr gæðarétti með seiðandi röddu og barmafullri reisn.

Það verður ekki af ykkur kvenþjóðinni tekið. Þið haldið okkur við efnið. Við erum náttúrulega svo afskaplega einfaldir og tengingin frá hugsun til aðgerða er sáraeinföld. Næstum því of einföld. Eitt blikk eða einföld bón á réttum stað og réttum tíma, dugir allajafna undireins. Með dáleiðandi persónutöfrum eigið þið að geta tælt okkur nánast hvert sem er. Ef það virkar ekki, þá eruð þið ekki með rétta manninn við höndina. Og þá er líka hættan á því að við missum ykkur eitthvert annað.

Rakst nýverið á fannhvíta bók í Eymundsson þar sem ritaðar eru á sjötta tug fantasía ónafngreindra íslenskra kvenna, sem líklega hafa gefist upp á einfaldleikanum á heimilinu og leyfa sér að dreyma um sælustund í forboðinni veröld. Ég opnaði sýningareintakið í búðinni og saup hveljur við fyrsta rennsli. Lýsingunum laust í gegnum hugann á leifturhraða. Á milli lína gaut ég augunum til afgreiðslustúlknanna. Kannski var bókin ekki ætluð fyrir karlmenn. Það voru engin bannmerki á henni. Ég lagði hana ljúfmannlega frá mér og brosti vandræðalega til þeirra. Af augnaráðinu að dæma var ég kominn út á hála braut.