Evrur í veskið

Þetta er allt annað líf. Langisjór ylvolgur og bjórinn ískaldur. Kallinn, sem rukkar fyrir bekkina, er sá sami. Búinn að standa sína plikt í tuttugu og eitthvað ár. Kann vel við hann. Ellihrumur og gráhærður gengur hann á milli manna og rukkar. Evrur. Í sandölum og ermalausum bol. Með hatt. Gamlan. Slitinn. Örugglega sá sami. Ég kann vel við mig á ströndinni. Börnin busla í flæðarmálinu og búa til sandkastala. Flotta. Minnir mig á þegar ég kom með börnin mín með mér og við smíðuðum hallir, reistar á sandi. „Á sandi byggði heimskur maður hús,“ söng ég með þeim í leikskólanum. Ég lék heimska manninn og krakkarnir híuðu á mig. Sagði þeim líka sögur af Birni bónda, sem bjó í Villingaholti og geymdi óþekku börnin í súrheysturninum. Að ógleymdri sögunni af Klaufa-Bárði, sem rann alltaf í skítnum í fjósinu. Minningar. Ljúfar.

Sjö evrur!, galaði sá gamli og vakti mig af værum blundi. Senior! Ha, já, fyrirgefðu kallinn minn. Góðan daginn! Ég gramsaði í veskinu. Var hugsað til Jóhönnu þegar ég borgaði. Mikið andskoti væri gott að fá útborgað í evrum og greiða í evrum hvort sem er heima á Fróni eða á Spáni. Þyrfti ekki þessi bannsettu gjaldeyrishöft, sem leyfa manni ekki að taka nema ákveðinn skammt af gjaldeyri. Svo sem ekki langt síðan maður fór með gjaldeyrisávísanir í sumarfríið. Ekki annað í boði þá. Eins og greifi að undirrita tékka í röðum. Unglingurinn sjálfur. Mamma hleypti mér út á sextánda ári til Mæjorka. Með Palla vin sextán og Gunna frænda hans, eitthvað eldri. Ótrúleg manneskja. Svo glöð þegar ég kom heim með fötin öll samanbrotin í töskunni. Samstíga.

Verðlagið á Spáni er bara þokkalega gott. Þú ferð að versla úti í búð og færð meira fyrir peninginn en heima. Léttvínið hræbillegt og bjórinn nánast gefins. Hættulega gefins. Ég trúi því að einn daginn eigum við eftir að lifa góðu lífi á Íslandi. Í náinni framtíð. Vonandi minni. Heimilisvörur á heildsöluverði og nautakjötið á niðursettu. Hlunkar á grillið. Meyrir. Nammi.

Ég ligg yfir þessu alla daga í minni vinnu. Kaupa gjaldeyri. Hringja í gjaldeyrisborðið og hlera stöðuna. Sveiflurnar svaklegar. Jafnvel innan dags. Ekki gott að búa við þetta til lengdar. Ætlum við að rembast eins og rjúpa við staur eða skella okkur í partíið? Hlakka til næstu kosninga og heyra hvað spekingarnir segja.