Ekki á allt kosið

Hér í sumarhúsahverfinu á Spáni ríkja sérlög og reglur. Fimmtíu húsa hverfiseining skipar með sér nefnd, sem hefur sinn forseta, varaforseta og vara varaforseta. Við búum við hliðina á Bessastöðum. Miguel forseti ræður ríkjum hér. Sennilega bróðir San Miguel, bjórframleiðanda, sem selur okkur mjöðinn á slikk. Ég kann vel við að hafa hann hérna við hliðina á okkur. Passar upp á að allt sé í góðu lagi og skipar fyrir, ef honum finnst ekki farið eftir reglunum. Við urðum að saga sítrónutréð af því það skagaði inn á lóðina hans. Alveg niður í rót. Eina tréð okkar í garðinum. Farið.


En nú eru kosningar í nánd í hverfi sjö. Forsetakosningar. Atkvæðaseðlum var dreift í hús og þeim á síðan að safna saman í byrjun ágúst. Ég tjáði honum að við yrðum farin. Hann skilur ekki ensku. Ég tala ekki spænsku. Vantar Írisi mína. Þurfti leiðbeiningar við að fylla út kjörseðilinn. Hann hjálpaði mér við það. Nafn ábúendans og húsnúmer komst ég í gegnum. En hverjir eru í kjöri? Hann hjálpaði mér við það líka. Kaus fyrir mig. Sjálfan sig. „El presidente“ sagði hann og barði sér á brjóst. Benti á spænska fánann, sem blakti við hún á Bessastöðum. Ég fylltist lotningu við þetta ágæta kosningakerfi. Algerlega eftir sérlögum og reglum hverfisins.


Ekki allt búið ennþá. Hann kom því áleiðis að árgjöld hverfisins yrðu að greiðast fyrir haustið. Níu þúsund krónur, íslenskar. Eitthvað færri evrur. Staðgreitt. Kvittun og stimpill frá forsetanum gildir. Dugar fyrir raflýsingu í götunni, ruslagámi úti á götuhorni og grasslætti á mönum við gangstéttarnar. Ákvörðun um aðra kúpla á ljósastaurunum var tekin fyrir nokkrum árum og um það var kosið. Á íbúafundi eins og hjá Árna bæjó heima. Meirihlutinn valdi laglega vasalaga kúpla með svartri trjónu. Miklu flottara en hjá hinum, sem eru bara með kúlulaga kúpla. Hverfi sjö vildi bera af.


Nú flokkum við ruslið líka. Dósir og flöskur í ávala gáma. Ruslið í kistulaga. Nýtilegt eða nothæft er lagt við hliðina. Hverfur yfirleitt á augabragði. Túpusjónvarpið fékk að fjúka. Dýnur og annað dót, sem komið var til ára sinni fór sömu leið. Nokkrum stundum síðar heyrðust hróp og skrækir. Einhverjir komust í góssið. Tóku það fegins hendi. Máttu það. Okkur leið vel á eftir. Grundig imbakassinn nýtist annars staðar. Fjarstýringin fylgdi með batteríum. Og nú sefur einhver í gamla bælinu. Okkar.