Dýrmæt gjöf

Ýmsir hópar ryðja sér nú rúms á fésbókinni vinsælu og þar verður mynd-efnið oft æði skrautlegt svo ekki sé meira sagt. Þar kennir ýmissa grasa. Árgangahópar, saumaklúbbar, starfsmannafélög og hvað eina, sem tengir fólk saman böndum. Einnig eru sérlega skemmtilegar gamlar myndir á síðunni Keflavík og Keflvíkingar sem vekja upp margar ljúfar minningar. Maður hverfur mörg ár aftur í tímann og rifjar upp atburði, sem löngu voru geymdir en ekki sannarlega ekki gleymdir. Rakst á mynd af sjálfum mér á einni hópsíðunni. Á þrettánda ári á reiðhjóli. Gelgjusvipurinn leynir sér ekki. Klæddur í mittisúlpu með skinnkanti á hettu, nefið að stækka, axlarsítt hvítt hár og í minningunni voru stelpurnar allar rosalega sætar.

Það snjóaði sem aldrei fyrr þessi jólin. Tilhlökkunin og eftirvæntingin um hvað leyndist í jólapakkanum kitlaði mallakútinn á Túngötunni. Dreymdi um ýmislegt en langaði samt mest í nýtt reiðhjól. Var þar af leiðandi reglulegur gestur á reiðhjólaverkstæði Hennings á Hafnargötunni. Gúmmíslöngu- og límlyktin angaði í anddyrinu um leið og maður gekk niður tröppurnar inn í ljósblátt og lágreist verkstæðið. Nánast niðurgrafið í jörðina. Verkstæðisformaðurinn gekk um hokinn í baki í blágræna sloppnum sínum. Af ljúfmennsku sinni leyfði hann mér að strjúka gæðingunum sem stóðu þar í öllum regnbogans litum. Sá eflaust stjörnublikið í augunum á mér.

Á Þorláksmessu gat ég ekki á mér setið. Kíkti upp á háaloft, þar sem gjafirnar voru jafnan geymdar, en sá ekkert sem hægt var að henda reiður á. Aðfangadag jóla arkaði ég venju samkvæmt út í snjóinn og bar út jólakortin til að stytta mér stundirnar og biðina. Við bræðurnir fengum alltaf að opna einn pakka örlítið fyrr, sem Dúa frænka á Ásabrautinni kom með. Yfirleitt á slaginu þrjú. Fullan af nammi. Það voru margir litlir pakkar við litla jólatréð þegar klukkan sló sex. Pabbi var þó eitthvað að pukrast niðri í kjallara og kallaði á okkur.

Það var lítil fyrirstaða í snarbratta tréstiganum niður í kjallara enda spennan að ná hámarki. Við mér blasti fagurblátt reiðhjól, einn af gæðingunum sem Henning hafði leyft mér að strjúka í gerðinu sínu. Dýrmætari gjöf var ekki hægt að hugsa sér. Mér fannst ég hafa mátað það í draumum mínum. Eflaust hægt að skransa á því og keppa við strákana um hver gæti prjónað lengst. Lásinn var silfurlitaður, eins og áföst skeifa neðan við hnakkinn. Fimm kórónulaga takkar. Mátti alls ekki gleyma læsingunni. Inn-út-inn-inn-út.