Dúndur gigg

Ég leit á tónlistarveisluna um helgina eins og hverja aðra stangveiðiferð. Alltaf von á stórlöxum og veiðin sýnd en ekki gefin. Að margra mati sannarlega ekki gefins. Sennilega þó allra ódýrasta veiði sem í boði var fyrir utan Veiðikortið, sem hleypir manni bara í tittina í vötnunum. Ég gerði mér grein fyrir því að væntingarnar yrðu, eins og í upphafi hverrar veiðiferðar, mjög miklar, en gæftir færu eftir efnum og aðstæðum hverju sinni. Oftast eru það náttúrlegar aðstæður sem gera það að verkum að illa veiðist. Vargar í vígahug sveima í ósum ánna á niðurleið seiðanna í átt til hafs eða viðvarandi fæðuskortur þegar þangað er komið. Þessar gildrur liggja ekki alltaf fyrir þegar kaupin á eyrinni eru gerð. En peningarnir tala.

Veiðin var engu að síður þokkaleg. Á annað hundrað laxa gengnir í ána og sumir hverjir býsna stórir. Þeir voru þó ekki allir í tökustuði. Hálf fúlir ef eitthvað var. Það þýðir ekki að við reyndum hvað við gátum. Böðuðum út öllum öngum og gott ef ekki spariflugunum líka. Þeir litu ekki við agninu og syntu burt. Leist ekki á aðstæður. Eins og mig langaði að eiga við þá. Horfa á þá í sínum náttúrulegu aðstæðum. Upplifa nándina. En þeim var fyrirgefið enda velsæmandi fólk sem ber virðingu fyrir þeim. Sennilega hafa þeir verið fangaðir áður án tilskilinna afgjalda. Brenndir af fortíðinni.

Ég hlakkaði þó mest til þess að hlusta á Pál Óskar í kirkjunni. Gleðigjafinn og Mónika töfra ávallt mikinn seið sem enginn verður svikinn af. Mér leið því eins og Júdasi á fimmtudagskvöld, vitandi af því að geta ekki mætt. Frúin og dóttirin stóðu vaktina og urðu ekki fyrir vonbrigðum. Hörpunnar slög hreyfðu við áheyrendum og söngurinn dásamlegur. Var því ákveðinn að mæta daginn eftir í Reykjaneshöllina og hlýða á hjartnæma Hjálma og Jón Jónsson, verðandi föður. En dyrnar stóðu á sér og þolinmæðina þraut. Blessunarlega hægt að sjá þetta á netinu heima fyrir. Eitthvað sem allir fengu notið endurgjaldslaust. Ekki hægt að kvarta yfir því.

Nei, nú gekk þetta ekki lengur. Ég yrði fara á lokakvöldið. Þetta hlyti að hafast hjá mér. Valdimar og Rottweiler í sigtinu hjá gamla. Þvílík upplifun! Átta manna stórsveit heimamannsins sló algerlega í gegn. Það er enginn fremri í dag. Skoppararnir á eftir voru sem hjóm eitt, en fallegur og friðsæll ungdómurinn fílaði giggið. Ég dúaði heim á leið, dolfallinn af dúndrinu. Með suð í eyrum!  

Valur Ketilsson.