Dagbók níunnar

Gangan í Litla skólann á Skólaveginum var ekki löng. Við Ragnheiður vorum samferða flesta morgna frá gatnamótum Klapparstígs og Túngötu. Hálfa leið upp Suðurgötuna. Oftar en ekki töfðumst við á leiðinni. Níu ára krakkar eru oft annars hugar. Einkunnabókin mín segir þrisvar sinnum of seint. Stafsetning og lestur í góðu lagi. Fjórða spjald undirritað af Sigurbjörgu Halldórsdóttur. Reikningur slakur og leikfimi í meðallagi. Sundtímarnir ekki á óskalistanum. Þorði ekki fyrstu árin. Svakalega vatnshræddur. Harkaði af mér um sumarið á sundnámskeiði hjá Guðmundi Óskari. Í fylgd mömmu. Sápustykkið afhent úr bogalöguðu búri sundhallarinnar. Ilmaðaði hreint út sagt vel. Ljósblátt.

Ökumaður bifreiðarinnar Ö-6840, gulur Fiat, hefur í dag kl. 07.40 á Hraunsvegi við hús númer 4, gerst brotlegur gegn ákvæðum umferðarlaga, um stöðu og stöðvun ökutækja. Lagt öfugt miðað við akstursstefnu. Vegna framangreinds brots ber að greiða sekt að upphæð nýkr. 110.- í ríkissjóð. Undir þetta ritar lögreglumaður annaðhvort nr. 6 eða 13, Jóhannes Jensson. Fyrsta umferðarlagabrotið staðreynd. Nítján ára námsmaður átti ekki þennan pening. Ég hlýt að hafa verið annars hugar að leggja svona. Ástin óútreiknanleg. Þori ekki að segja pabba frá þessari vitleysu. Sumarhýran rýrnar. Andskotinn!

Börnin nýorðin þrjú og ekki úr vegi fyrir fjölskylduna að stækka heimilið. Í bígerð að kaupa nýbyggt raðhús í Lágmóanum, í hjarta Njarðvíkur. Bæjarfélagið fagnar 50 ára afmæli og von er á forsetanum í tilefni hátíðarhaldanna. Eins og það væri ekki nóg. Hjá ungum og hraustum manni á tuttugasta og níunda ári kraumaði krafturinn undir niðri. Vildi ólmur breyta ímynd Verslunarmannafélagsins. Kjörin og félagsaðildin ónóg. Bauð mig fram til formanns. Jói Geirdal keppinauturinn. Taldi að viss stöðnun hefði átt sér stað og nýtt fólk yrði að koma til svo að störf félagsins breyttust, þau yrðu persónulegri. Lagði aðaláherslu á að bæta samskiptamál félagsins. Laut í lægra haldi.

Tími tilkominn að flytja aftur til Keflavíkur. Í Háaleitið. Sumarið eitt það erfiðasta í lífinu. Missti bæði atvinnu og móður í sama mánuði. Heimurinn hrundi í einni svipan og sálarlífið stóð á brauðfótum. Á öllum sviðum. Þrjátíu og níu ára og dapur. Ómetanleg hjálp og samheldni í fjölskyldu og vinum. Sá ljósið að nýju. Allt í nýju ljósi. Ný verkefni komu upp í hendurnar. Fullviss um að öllu væri stýrt að handan. Umvafinn kærleika og hlýju. Í Jesú nafni.  

Fimmtudagurinn 6. desember. Fjörtíu og níu ára gamall í dag. Auðmýkt efst í huga. Best að skrifa eitthvað í dagbókina.