Börn náttúrunnar

Samkvæmt reiknivél á vef breska ríkisútvarpsins var ég 3.237.583.545. þálifandi jarðarbúinn sem kom í heiminn. Gerðist á fæðingardeild sjúkrahússins í Keflavík fyrir tæpum fimmtíu árum síðan. Þótti svo sem ekkert voðalega merkilegur atburður á heimsvísu enda höfðu þá á undan mér fæðst 77.066.605.210 aðrir á hnattkringlunni frá því árið fimmtíu þúsund fyrir Krist. Mamma hringdi í pabba og lét hann vita af gleðitíðindum fjölskyldunnar. „Fimmti drengurinn!“ voru nægar upplýsingar í það skiptið. Surtsey hafði skömmu áður risið tignarlega úr sæ og spúði eldi og brennisteini eins og enginn væri morgundagurinn. Kennedy forseti Bandaríkjanna syrgður um heim allan eftir banvænt voðaskot í Texas. Veturinn logaði sem sagt í heimsfréttum á meðan hvítvoðungurinn grenjaði fyrstu andartökin í örmum móður sinnar.   

Æ fleiri hafa síðan bæst í veraldarhópinn, þó svo ég hafi verið örverpið innan veggja Túngötunnar, hússins númer fimm. Síðast þegar ég athugaði á áðurnefndum vef vina okkar í Bretaveldi voru núlifandi jarðarbúar eitthvað ríflega sjö milljarðar, að meðtöldum þeim sem svífa um himingeiminn í leit að bújörðum  framtíðarinnar. Ekki svo að það sé á næsta leyti en vissulega þurfum við að koma öllum fyrir á komandi öldum, ef svo heldur áfram sem horfir. Árlegur heimsvöxtur mannkyns er ríflega eitt prósent á ári. Ég hef aftur á móti áhyggjur af því núna að við náum ekki að fylla í tómu húsin sem hafa verið byggð á Suðurnesjasvæðinu á undanförnum árum. Ætla má að það gerist þegar fram í sækir enda verðandi búsæld í sveitinni sælu.

Svo er að sjá til þess að allir hafi í sig og á. Við erum blessunarlega ekki á flæðiskeri stödd hvað það varðar, þó einhverjir kveinki sér eftir barning síðustu missera. Við höfum það samt afskaplega gott í samanburði við marga okkar af meðbræðrum og systrum um heim allan. Gnægð vatns og fiskjar, besta lambakjöt í heimi, mjólkurafurðir og grænmeti í háum gæðaflokki og hreint loft úr lægðanna flóru. Funheitt vatn til ylja í vetrarhörkum og ódýrt rafmagn á dimmum dægrum. Allt framreitt úr vistvænni orku náttúruauðlindanna. Ég skammast mín fyrir að biðja um eitthvað meira.

Lífið hefur kennt mér að njóta þessara auðlinda af auðmýkt og virðingu. Það er ekki sjálfgefið að búa við slíkan kost en til þess að svo megi verða áfram, þarf að hlúa að umhverfinu, náttúrunni og síðast en ekki síst mannfólkinu sjálfu. Þar á ekki að þurfa að spyrja um hverjir eru hvar í röðinni.