Beisluð sýn

Að baki er bjart og hlýtt sumar. Þurrara en mörg önnur undanfarin ár. Garðslangan fékk sinn skerf af notkuninni og gróðurinn drakk í sig úðann. Krækiberjalyngið á skaganum hefur ekki fengið sömu meðferð og er líflaust á haustdögum. Þarf að sækja berin eitthvað lengra að þessu sinni. Dásamlegt að fá að safta svolítið og eiga djúsinn í vetur. Skipulag sumarsins gekk aldrei þessu vant vel fyrir sig og teyging á því var að njóta sólarinnar á Spánarströnd í maí. Varð svo miklu meira úr sumrinu fyrir vikið. Sumarbústaðarferðir og ferðalög lifa í minningunni. Haustið á næsta leiti og myrkrið að skella á.

Ólíkt öðrum þá er minn tími að renna upp. Elska þennan tíma. Tími fyrir kertaljós í gluggasyllum og notalegar kvöldstundir í kyrrðinni. Keypti þennan líka lekkera ilmolíulampa á Ljósanótt sem ætlar að magna stemninguna fyrir mér. Litríkt ljósaskraut að auki. Snark í arineldi og flísteppi um öxl í hauströkkrinu á eftir að lama lúnar lappir og næra sálartetrið. Ljúfir tónar úr lystigarði ættartrésins á Skólaveginum fylla umgjörðina og tómið sem útaf stendur. Eldar, sem dropi í hafið en fylling í sjálfið. Lóan safnast saman á túninu og undirbýr að kveðja í bili. Þennan táradal. Lofar að koma aftur með birtu og yl. Við þurfum á því að halda.

Félagsstarfið í undirbúningi. Fjörugt og fyrirferðarmikið. Bræðralagið binst að nýju og ber saman bækur sínar. Lífið er margbreytilegt og ljómi afurðarinnar ólíkur. Ekki eru allir í lífsins leik. Aðrir eins og lauf í vindi. Flestir endurnærðir eða gæfuríkir. Hæðir eða lægðir eins og gerist og gengur í lífinu. Gagnast þá faðmur félagsskaparins og umhyggja fyrir hvorum öðrum. Fátt betra en hlýtt handtak eða fágæt stund í horni. Nálgun í næði. Borin á borð af einlægni og heiðarleika.

Markmiðin liggja þó fyrir og daðra við mig í fylgsnum hugans. Það er svo margt sem mig langar að gera og hefur lengi langað. Draumar geta orðið að veruleika ef stefnan er mörkuð. Blanda af elju og hógværð hefur reynst mér vel hingað til. Stefni á slíka tvennu. Þú uppskerð eins og þú sáir. Jarðvegurinn frjór fyrir flestar hugmyndir. Sást vel á litbrigðum listafólksins um helgina. Hamingjan skein úr hverju andliti enda fantasíurnar ferskar. Mínar eru þegar komnar á blað og bíða frjóvgunar. Framkalla sýn sem ekki verður beisluð öllu lengur.