Banvæn blanda

Við félagarnir stóðum íbyggnir inni á Stóru-Aðalstöð og litum í kringum okkur. Gægðumst út um gluggann af og til og drukkum Spur úr gleri. Drekk‘ana hér! Biðin reyndi á taugarnar og bar engan árangur. Klukkan að verða sex á föstudegi og Ríkið að loka. Við tókum sprettinn niður á Dorró. Kannski kæmi einhver þangað til að kaupa sér sígarettur og hægt væri að tjónka við. Vorum með nokkra þúsundkalla í vasanum eftir að hafa spilað og unnið í Lionsbingói í Stapanum kvöldinu áður. Spiluðum með þrjú spjöld hvor og unnum á tvær láréttar línur og einn ramma. Skiptum gróðanum. Töldum okkur borubratta að geta keypt smávegis af veigum fyrir helgina. Partí um allan bæ og jafnvel pókerkvöld, ef illa viðraði.

Ódýrast var að kaupa kryppling af íslensku eða flösku af „Twenty-one“, ýmist rauða eða gula. Gott að drýgja það með vatni. Dugði oft tvö kvöld ef svo bar undir. Auralitlir keyptum við Martini Bianco og blönduðum rauðum opaltöflum út í til að bragðbæta súruna. Djöfull vondir fyrstu soparnir. Í miðri mæðunni birtist hann loksins. Nágranninn. Við hlupum út á Hafnargötu í veg fyrir stífbónaðan Mustanginn. „Hey, ertu ekki til í að fara í Ríkið fyrir okkur?“ Töffarinn sneri sér snaggaralega í leðurklædda ökumannssætinu, tók niður Ray-Ban gleraugun og kímdi. Greip aurana og reikspólaði tvo heila hringi svo stórsá á breiðum afturdekkjum tryllitækisins. Útvegsbankinn umlukinn gúmmímekki svo ekki glytti í útidyrnar. Iðnaðarbankinn slapp að mestu við tægjurnar sem þeyttust upp á gangstétt en bergmálið af ýlfri afturfelganna ómaði alla leið inn á Vatnsnestorg.

Helginni var reddað. Sopinn teygaður og stórkallasögur sagðar daginn eftir. Alltaf einhver sem stóð upp úr og var aðal. Hinir hámuðu í sig franskar með kokteilsósu á meðan sögustundin varði. Héngum á Þórðarsjoppu frá þrjú til sex. Afgreiðsludaman, lúin og Camelþurfi, rak okkur út með reglulegu millibili. Fylltum öskubakkann tvívegis á gleðistundu sem þessari. Marlboro í hörðum pakka ofan af Velli. Smyglað undir girðingu þrátt fyrir vökul augu tvíeykisins.

Við hétum því að leika sama leikinn aftur um kvöldið. Einhver annar þyrfti að vera aðal. Aldrei sami tvö kvöld í röð. Ball í Bergás og lítið mál að lauma lögg í brók. Partí á Faxabrautinni á eftir. Brjálað stuð. Bæjarvillingar bannaðir og Brimkló á fóninum. Banvæn blanda. Sú saga bíður gleðistunda yfir sherrystaupi á Nesvöllum. Nema það verði bannað.