Austur fyrir fjall

Við hjónin tókum páskahelgina snemma. Áttum saman ljúfar stundir um sl. helgi í góðra vina hópi. Ísland allt árið er viðkvæðið þessa dagana og við tókum það bókstaflega. Stefnan var tekin á Laugarvatn, sem í minningunni er ævintýrasveit. Frúin tuðaði yfir nýrri ferðatilhögun, sem féll illa í kramið. Allt of mikið af beygjum. Þingvellir og Lyngdalsheiði eru ekki fyrir bílveika. Keypti handa henni nammi og söng fyrir hana „Þrjú hjól undir bílnum“. Allt kom fyrir ekki, jafnvel þó ég segði henni frá Laugarvatnshellum, sem eru manngerðir móbergshellar í Reyðarbarmi á Laugarvatnsvöllum, miðja leið milli Þingvalla og Laugarvatns. Hellarnir voru tveir, annar fjögurra metra breiður og 12 metra langur, en hinn álíka langur en mjórri. Hellarnir þekktir fyrir að það var búið í þeim í byrjun 20. aldar. „Erum við ekki að koma?“, stundi frúin lúin.

Fór í fyrsta skipti til Laugarvatns á barnsaldri með foreldrum mínum og upplifði þá að drekka vatnið beint úr læk. Ausan í bústaðnum hjá Úllu frænku og Tona var vinsælasta áhaldið. Gat hreinlega ekki hætt að svala þorstanum í sumarsælunni. Núna fæst vatnið átappað í hálfslítra flöskum fyrir á þriðja hundrað krónur í sjoppunni. Rifið úr hillunum, jafnt af erlendum sem innlendum. Bragðbætt í mörgum útgáfum. Fann ekki Laugarvatnsbragðið ómótstæðilega. Gleymi heldur aldrei íþróttabúðunum sem við strákarnir fengum að heimsækja tvö sumur í röð, vikulagt í senn. Upplifði æskuna í huganum. Hverafýla, kappleikir, sundmót, kvöldvökur.

Áhuginn núna var þó meiri á kaffihúsinu í Galleríinu á Laugarvatni. Þar er boðið uppá úrvals kaffi, kakó eða te ásamt hverabökuðu rúgbrauði með reyktum silungi frá Útey og ýmsu öðru. Kætir bragðlaukana. Yndælis fólk og vinalegar móttökur eru aðalsmerki staðarins, enda líta ferðamennirnir við í röðum, allir kynstofnar. Íslenskt handverk í boði, minjagripir, makindi, meðlæti. Tekið vel á móti öllum, engu um það logið.

Ekki hægt að sleppa rúntinum án þess að heimsækja Gullfoss og Geysi. Ægifögur náttúrufyrirbrigði sem láta engan ósnortinn. Tignarlegur foss og kraumandi hveravatn. Þvílíkar andstæður. Myndefnin ótrúleg. Vel búið að gestum, göngustígar og upplýsingar. Glæsilegir áningastaðir. Gæftir óendanlegar án inngripa stjórnvalda. Skattar eiga ekki samleið með náttúruperlum. Fæla frekar frá en laða að. Hlúum frekar að náttúrunni. Veljum framsýni fremur en skammsýni. Þannig föngum við athyglina og sáum fræjum um leið.