Auður ógilda

Fimmtudagsvals vikunnar

Þá er Tekjublaðið komið út og launin í samfélaginu dregin fram í dagsljósið. Ekki ólíkt því þegar álagningarskráin var borin út í hús hér á árum áður. Þetta er samt ekki holl lesning fyrir landslýð. Fullyrði að innhaldið sé óhollt, sérstaklega fyrir stórfiskana sem eru með margar milljónir í mánaðarlaun. Það er engum Íslendingi ætlað að lifa við svoleiðis vellystingar. Eilífur samanburður við hákarlana í útlöndum, þar sem allt er svo miklu stærra og meira, veit ekki á gott. Ofurlaunastefnan hefur enn og aftur siglt inn í íslenskt samfélag, fyrst fyrir mátt og megin útrásarinnar, en síðar fyrir gleymskunnar dá. Harmsaga sem stefnir í stórtækan skipaskaða. Kjararáð var þó öllu hógværara þegar það ákvarðaði laun forstjóra og framkvæmdastjóra ríkisfyrirtækja og stofnana, sem undir það heyra. Þetta eru smáaurar í samanburði við fley atvinnulífsins. Sitt sýnist þó hverjum.

Launþegar bíða óþreyjufullir eftir álíka launahækkunum enda kjarasamningar lausir í lok árs. Vissulega verður tekist á um launahækkanir handa verkalýðnum. Gamla rullan um stöðuleikasáttmála í stað óðaverðbólgu og afleiðingar hennar eru að verða sem hjóm eitt. Á meðan bústnar sjávarútvegurinn og bankageirinn að nýju. Niðurstaðan verður engu að síður sú að engin innistæða sé fyrir launahækkunum. Framleiðnin dugi bara fyrir drekana.  

Lífeyrissjóðurinn Festa ákvað fyrir skömmu að skerða áunnin lífeyrisréttindi lífeyrisþega um fjögur prósent. Greiðslur til þessa hóps lækka því til samræmis, ásamt því að geymd lífeyrisréttindi þeirra sem greiða inn í sjóðinn lækka samsvarandi. Grátleg niðurstaða þegar allt annað er að hækka. Heimilisrekstur og húsnæðislán rjúfa reglulega gat á budduna og víst er að margir eiga um sárt að binda. Þrátt fyrir þetta eru lífeyrissjóðirnir aftur orðnir stórtækir á hlutabréfamarkaði. Það er ákveðinn kvíðbogi yfir þeirri vegferð því auðsjáanlega eru afleiðingar úr braskinu enn að líta dagsins ljós. Ávöxtunarmöguleikarnir víst fáir þessa stundina í skugga gjaldeyrishafta. Vonandi fara þó  vörsluaðilar á fjármunum þegnanna öllu varlegar í þetta skiptið. Kvíði samt ennþá að líta Sparisjóðsskýrsluna augum. Ef hún verður þá birt.

Öllu einkennilegri þykir mér umönnun erlendu flóttamannanna sem spígspora hér um götur bæjarins. Er því virkilega svo fyrir komið, að ríkið greiði bæjarfélögunum ríflega tvö hundruð þúsund krónur í dagpeninga á mánuði til þess að fólkið njóti gjaldfrjálsrar aðstöðu í húsnæði, á heilsuræktarstöðum eða sundlaugum, auk almenns fæðiskostnaðar? Á meðan bera örorku- og ellilífeyrisþegar þessa lands nálægt fjórðungi minna úr bítum og þurfa sannarlega að greiða að öllu eða einhverju leyti fyrir sömu aðstöðu? Sé ekki muninn á því hvor hópurinn teljist pólitískir flóttamenn.