Áttu apótekara?

Valur minn, ætlarðu ekki að fara í bíó? Hérna er tuttugu og fimm kall handa þér, drífðu þig nú, klukkan er alveg að verða þrjú. Mamma var á gluggavaktinni enda bíóið í næsta húsi á Túngötunni. Ég leit upp úr hasarblaðinu og stökk á fætur eins Tarzan í trjánum, sem átti einmitt að fara að sýna. Gústi bíóstjóri búinn að opna fyrir miðasöluna og Torfi gamli, sem fór undantekningalaust á allar þrjúbíósýningar á sunnudögum var mættur á sinn stað. Sat alltaf uppi á fyrsta bekk í sæti númer níu. Ég ætla að koma við hjá Ellerup á Suðurgötunni og kaupa apótekara hjá Unni Þorsteins og Dísu Berta, sagði ég ákveðinn og fullur tilhlökkunar. Svo stutt að fara. Tveimur svörtum stautum rúllað upp í hvítt bréf og smjattað á þeim fram að hléi. Klístraður á puttunum.

Ég var að hugsa um að bjóða þér á Hótel Esju á laugardaginn, sagði ég borubrattur við frúna á vorjafndægri. Jæja allt í lagi, Hilton eða Nordica eða hvað þetta nú heitir! Kvöldverður á hótelinu við kertaljós og klæðin rauð, svona rétt til þess að þurfa ekki að fara alltof langt í burtu. Allt fram borið með seiðandi röddu og bliki í auga. Er ekki hægt að panta slökunarnudd í spa-inu, voru hennar fyrstu viðbrögð. Jú eflaust, ég skal kanna málið, elskan mín! Það var vitanlega allt yfirfullt og okkur bætt á biðlistann. Ég býð þér í Kringluna í staðinn ef við komumst ekki á bekkinn, sagði ég súr í bragði en vongóður.

Það fór vel um elskuna í eftirmiðdaginn og uppáhalds hótelkoddarnir hennar deyfðu vonbrigðin yfir því að komast ekki í heilsulindina. Útsýnið yfir til Esjunnar var stórkostlegt og kyngimagnað. Hugsanirnar flugu út um gluggann og fyrr en varði var kominn tími á sparifötin. Matseðillinn auðlesinn og vissara fyrir suma að dreypa ekki á skelfisksúpunni í forrétt. Nema hún ætlaði að taka  rúnt með Rauðakrossbílnum! Lambið var ljúffengt og eftirrétturinn framandi. Ís úr lífrænum rjóma frá Erpsstöðum, kaffifrómas, mólassis og bræddur apótekaralakkrís.

Eftir hlé sátum við strákarnir með krónukúlur og karamellur og klöppuðum fyrir konungi apanna. Sýninguna á enda. Æfðum herópið og börðum okkur á brjóst á leiðinni út. Ég mátti til með í þessum hugrenningum, að biðja þjónustustúlkuna að spyrja matreiðslumeistarann, hvar hann hefði eiginlega fengið lakkrísinn sem hann setti í eftirréttinn. Hann kom sérstaklega fram til þess að afhenda mér góðgæti í nesti. Klístraða apótekara úr Lyfju.