Ást við fyrstu sýn

Sumarið er tími brúðkaupa. Fátt skemmtilegra en að fá að taka þátt í svoleiðis gleði endrum og eins. Sem gestur. Búinn að nýta hina hliðina á peningnum. Það var gaman að fylgjast með undirbúningi að stærsta degi lífsins, spennustiginu magnast allan veturinn og svo er loksins komið að því. Dagurinn sérstakur. Allir njóta. Lífsins. Aðdragandinn litríkur. Það þurfti að steggja. Og gæsa. Allt tekið upp á myndband. Klippt og skorið að hætti ungdómsins, sem allt getur í dag. Skemmtiefni til sýningar í brúðkaupinu sjálfu. Ótrúlegir tilburðir og blessunarlega við allra hæfi. Bara gaman. Var ekki komið nægilega í tísku þegar mínir dagar dundu yfir.

Ég átti í mesta basli að samþykkja ráðahaginn. Okkar. Þurfti að tala við séra Þorvald sérstaklega. Átti bágt með að sjá kostina og þuldi upp fyrir honum að þetta væri ekki rétti tíminn. Minn. Ég átti eftir að gera svo margt og var stórefins um að þetta væri rétta skrefið. Það lægi svo mikið annað fyrir. Raddir sem hvísluðu því að mér. En saman fylktu þau liði og sögðu mér að missa ekki svefn yfir þessu. Róuðu mig. Ég væri að fá gott kvonfang. Hún ætlaði ekki að búa ein með börnunum tveimur. Svona, svona, ég ætti örugglega líka eftir að endurnýja bílinn og þvottavélina!

Þau hittust á Hafnargötunni. Hún var í magabol. Hann var í hettubol. Hún vildi ekki sjá hann. Hann gafst ekki upp. Neitaði. Sumarið var tíminn. Sællegur níundi júní. Þau áttu sameiginlegt áhugamál. Súkkulaði. Svo sætt. Ekki aftur snúið. Það var ást við fyrstu sýn. Hans. Staðfesti það í kirkjunni. Og Valdimar söng: „Við eigum svo undurvel saman við tvö, skiljum hvort annað og heiminn svo vel.“ Mígandi hamingja.

Við hittumst á Hafnargötunni. Ég ákvað að geyma bílinn og fá mér göngu. Aldrei þessu vant. Raddirnar. Settist á grindverk kastalahússins við hliðina á Lindinni. Þarna kom hún gangandi. Ein. Nýkomin úr ljósatíma. Rjóð í kinnum. Á tréklossum. Ætlaði að kaupa sér Sinalco og sígarettur hjá Jóa. Kannski líka rjómatoffí. Við tókum tal saman. Tvö. Í hauströkkrinu fjórða september. Hún bauð mér í kaffi. Ég þáði. Sopinn var ljúfur. Lífið tók á sig nýja mynd. „Sálir sem hittast og heilsast á ný.“ Við ætluðum að eignast tíu börn. Stærðfræðin ekki í uppáhaldi. Lögðum saman tvo og tvo og fengum út fimm. Í fjölskyldu.