Andagift í eymdinni

Eitt af því sem við hjónin höfum gaman af, er að fara saman í leikhús eða á tónleika. Getum hreinlega ekki án þeirra verið. Leikhúsin veita manni andagift sem nauðsynleg er ímyndunaraflinu og innblæstri í dagsins önn. Sátum nýverið á fyrsta bekk á nýja sviðinu í Borgarleikhúsinu og fylgdumst með „Fólkinu í kjallaranum“. Óborganlegt að fá lífið í lúkurnar og hratið yfir sig allan, ef svo mætti að orði komast. Ógleymanlegur nútíma brjálæðisbragur!

Það er gott að vera til, ekki bara spila spil. Hversdagsljóminn er einn allsherjar feluleikur, spurning bara hvernig þú ferð með hann. Lífið er allt fullt af Pollýönum og þú sérð tár á hvarmi, ef þú bara leitar og hlustar. Eymdin, harðlífið, biturleikinn, örbirgðin. Líka velferð, lífsgleði og tápsemi. Allt í boði og þú einn leitar það uppi, sem þér þykir viðeigandi hverju sinni. Endurnæringin vinnur úr flórunni og þú matreiðir útkomuna. Ferð með hana út í lífið, deilir henni með öðrum og færð mismunandi svör við ráðgátunni. Engum dylst að undir niðri tekst fólk jafnt á við léttvæg og erfið verkefni, sem á endanum verða innlegg í reynslubankann. Hann verður aldrei gjaldþrota og er opinn allan sólarhringinn! Fit-kostnaður mismikill.

Tónleikar með Bubba geta líka verið einn allsherjar rússíbani, þú ýmist elskar hann eða ekki. Á tímabili bölvaði hann öllum gelgreiddum „businessmönnum“ og bankastjórum eða úreltum alþingismönnum, sem engan áttu bandamanninn og brugðust í erli dagsins. Blessunarlega þó á milli laga. Í dag raular hann um börnin sín í ljúfum ljóðum og er löngu búinn að gleyma því þegar hann seldi sálu sína og braskaði með afurðina í fjármálaspekúlantsjónum. Hún féll eins og spilaborg í vindhviðunni víðfemu. Ísabella og París Dögun eru orðin ljóð sem færðu honum lífshamingjuna á ný og aðra og miklu betri sál. Það eitt vakti mig til umhugsunar um að allt í veröldinni er hverfult, jafnvel stál og hnífur!

Valur Ketilsson