Allt fram talið

Er þetta ekki yndislegur tími til þess að gera upp árið fjárhagslega. Um leið og maður gerir upp í vinnunni, með hreint út sagt afar duglega endurskoðendur á bakinu, þarf að gera upp heima líka. Blessunarlega með eigin endurskoðun og gagnrýni. Veðrið úti fyrir er til þess að gera sniðið fyrir svona vinnu enda vill Oddný fjármálaráðherra eflaust að við skilum á réttum tíma. Hálft í hvoru gerir þetta sig sjálft engu að síður. Það er hugsað fyrir þig í tekjum, eignum og skuldum. Engu hægt að skjóta undan, ekki einu sinni bankabókunum. Það var þó hægt hér áður fyrr. Var staðráðinn í því að beita fyrir mig bankaleynd ef til þess kæmi að skattstjóri spyrði um aurana mína. Kom ekki til.

Nú liggur þetta allt saman fyrir og forskrifað í skattframtalinu. Það sem áður þurfti margra vikna undirbúning við að skeina skúffur, raða og leggja saman, símtöl og sáluhjálp, birtist núna eins og Nýja testamentið á heimasíðu skattstjórans. Allar fyrirbænir óþarfar og kvíðaköstin úr sögunni. Útreikningurinn liggur fyrir á sömu mínútunni. Hér áður fyrr var skattskráin prentuð og borin út í hús, svo allir vissu allt um alla. Fiskflök í poka voru lögð á tröppurnar hjá þeim sem „minna“ máttu sín í þá daga og greiddu litla sem enga skatta, einhverra hluta vegna. Nú verðurðu að skreppa niður á bæjó og hefur hálfan ágústmánuð til þess að hnýsast í upplýsingar um tekjur nágrannanna eða velmektarfólksins. Langar ekkert til þess.

Fimm framtöl lágu í valnum að þessu sinni. Hefði getað gert fimmtíu, þetta var svo gaman. Óskaði samt ekki eftir tryggingu við heimilisstörfin. Er sérstaklega óframfærinn við eldamennskuna, en þvottavélina og þurrkarann hitti ég einungis þegar eitthvað bilar. Sé um að ryksuga og skúra reglulega, fer oftast út með ruslið og strauja minn eigin þvott. Skyrturnar líka. Þarf að tryggja þetta ferli eitthvað?

Ég er sáttur við skattana sem ég greiði til samfélagsins. Geng hnarreistur út um dyrnar á morgnana og framtalið er minn vitnisburður, ef einhver vill kíkja. Skattmann sér þó aumur á mér og vill endilega hjálpa til vegna hárra vaxtagreiðslna, sem íþyngdu heimilinu á síðastliðnu ári. Ég er sem sagt á bótum líka. Fæ þær í tvennu lagi, á degi verkalýðsins og frídegi verslunarmanna. Bestu dagar ársins. Slepp þó við fiskflökin enda engar tröppur á mínum bæ.