Reykjanesbær rekur grunnskóla á Vallarheiði næsta haust

Nýr hverfisskóli mun taka til starfa á Vallarheiði í Reykjanesbæ næsta haust og verður hann rekinn af Reykjanesbæ. Mun þar verða starfrækt nokkurs konar útibú frá Njarðvíkurskóla þar sem verður kennsla í 1.-5. bekk, en stefnt er að því að bæta við einum bekk árlega.

Eiríkur Hermannsson, fræðslustjóri, sagði í samtali við Víkurféttir að nú væri undirbúningur kominn á fullt . „Við erum þegar farin að vinna í að finna húsnæði. Það er ljóst að það verður veruleg fjölgun á svæðinu á næstu árum og á meðan við erum að átta okkur á því hver hún verður munum við reka skólann sem deild í Njarðvíkurskóla.“

Síðasta vetur hefur Hjallastefnan starfrækt skóla fyrir fyrstu fjóra bekki grunnskóla á Vallarheiði. Í ljósi mikillar fjölgunar á umsvifum tengdum skólastarfsemi Keilis þótti bæjaryfirvöldum hins vegar nauðsynlegt að stofna hverfisskóla líkt og í öðrum hverfum bæjarins.

Í tilkyningu frá fræðslustjóra segir m.a.: „Ef áætlanir ganga eftir má gera ráð fyrir 200 barna grunnskóla innan örfárra ára og mun Reykjanesbær annast rekstur hans eins og annarra  hverfisskóla í bænum enda leggur bæjarfélagið metnað í að sinna öllum skólahverfum bæjarins vel og koma til móts við þarfir nýrra hverfa í ört vaxandi bæ.“

Hjallastefnan mun ekki reka grunnskóla á svæðinu næsta ár, en leikskólinn Hjalli verður áfram starfræktur. Það er þó fullur vilji beggja aðila, Hjallastefnunnar og Reykjanesbæjar, að þráðurinn verði tekinn upp að nýju innan fárra ára. Er miðað að því að sá skóli verði staðsettur miðsvæðis í bæjarfélaginu sem valkostur fyrir þá foreldra grunnskólabarna.

Í tilkynningunni er Hjallastefnunni þakkað fyrir samstarfið, sérstaklega fyrir skjót viðbrögð við uppbyggingu grunnskólans síðasta haust.

Loftmynd/Oddgeir Karlsson