Ellisif Tinna Víðisdóttir skipuð forstjóri nýrrar Varnarmálastofnunar

Utanríkisráðherra hefur í dag skipað Ellisif Tinnu Víðisdóttur forstjóra Varnarmálastofnunar til fimm ára frá og með 1. júní nk. en þann dag tekur stofnunin formlega til starfa.

Íslendingar axla nú í fyrsta sinn frá stofnun lýðveldis eigin ábyrgð á varnarmálum og fær Ellisif Tinna það mikilvæga hlutverk að móta starfsemi nýrrar stofnunar á grundvelli varnarmálalaga frá Alþingi. Ísland er eitt 24 herlausra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna og er herleysi Íslands forsenda varnarmálalaganna sem kveða á um að ný borgaraleg ríkisstofnun skuli fara með öll varnartengd verkefni innanlands og varnartengd alþjóðasamskipti.

Verkefni Varnarmálastofnunar eru m.a.: rekstur íslenska loftvarnakerfisins, þátttaka í samræmdu loftrýmiseftirliti og loftrýmisgæslu NATO, rekstur, umsjón og hagnýting öryggissvæða og mannvirkja, undirbúningur og umsjón varnaræfinga hérlendis, þátttaka í starfi nefnda og undirstofnana NATO, verkefni sem varða framkvæmd varnarsamningsins, sbr. lög nr. 110/1951, samstarf við alþjóðastofnanir og framkvæmd alþjóðasamþykkta á sviði varnarmála, ráðgjöf til utanríkisráðuneytisins og samstarf við háskóla og alþjóðleg samtök.

Samhliða því að Varnarmálastofnun tekur til starfa 1. júní verður Ratsjárstofnun lögð niður. Ellisif Tinna hefur þegar tekið sæti í starfshópi utanríkisráðherra sem undirbýr gildistöku varnarmálalaganna og upphaf starfa Varnarmálastofnunar. Starfshópurinn ber m.a. ábyrgð á að framkvæma bráðabirgðaákvæði við varnarmálalögin þar sem kveðið er á um að öllu starfsfólki Ratsjárstofnunar á uppsagnarfresti skuli boðin störf hjá Varnarmálastofnun.

Ellisif Tinna er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur að auki BA gráðu í mannfræði frá sama skóla. Ellisif Tinna er reyndur stjórnandi, hún hefur verið aðstoðarlögreglustjóri hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum frá stofnun þess embættis, og var staðgengill Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli frá 2004. Þar á undan vann hún sem löglærður fulltrúi hjá því embætti frá námslokum og átti sæti í yfirstjórn þess allan þann tíma. Á starfstímabili Ellisifjar Tinnu gekk embætti Sýslumannsins í gegnum meiriháttar umbreytingarferli samhliða inngöngu Íslands í Schengen samstarfið. Ellisif Tinna gengdi lykilhlutverki í þeirri umbreytingu svo og sameiningu lögregluliðanna á Suðurnesjum. Hún var breytingarstjórnandi hjá Ratsjárstofnun um ríflega tveggja mánaða skeið sl. haust og hefur auk þess mikla reynslu af samskiptum við samstarfslönd innan NATO.