Eldey - frumkvöðla- og orkusetur stofnað á Vallarheiði

Keilir, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Háskóli Íslands og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar undirrituðu í dag samning um uppbyggingu og rekstur  frumkvöðla- og orkuseturs á háskólasvæði Keilis á Keflavíkurflugvelli.

Setrið, sem er staðsett í byggingunni sem áður hýsti verkfræðideild bandaríska hersins, Public Works, fékk nafnið Eldey. Er hlutverk þess að skapa þekkingarumhverfi, aðstöðu og umgjörð fyrir frumkvöðla til að vinna að nýsköpun og að veita þeim faglega þjónustu og stuðning við framgang hugmynda sinna. Auk þess mun Eldey hýsa kennslu Keilis í frumkvöðlafræði  og aðra starfsemi Keilis á vegum klasanna skóla skapandi greina og orku- og tækniskóla.

Eldey mun bjóða til leigu húsnæði til frumkvöðla og fyrirtækja á lágu verði sem fer stighækkandi eftir vexti og viðgangi fyrirtækja auk þess sem þar verða staðsettir ráðgjafar Nýsköpunarmiðstöðvar vegna vinnslu frumkvöðlaverkefna og starfsemi frumkvöðlafyrirtækja. Þá verður í húsinu aðstaða fyrir smiðjur, verkstæði, rannsóknir og frumgerðasmíði. Þá mun verða byggð upp rannsóknaraðstaða í orkuvísindum í húsinu sem gagnast mun orkuskóla Keilis, Nýsköpunarmiðstöð og Háskóla Íslands.
 
Undirritun samningsins fór fram í húsi 506 á gamla varnarsvæðinu sem áður hýsti verkfræðideild bandaríska hersins Public Works, þar sem starfsemin mun fara fram.

Á meðal gesta var Össur Skarphéðinsson, iðnaðaráðherra, sem mærði mjög starfsemina á gamla varnarsvæðinu og sagði að staða Suðurnesja væri einstök og tækifærin fjölmörg og mikill kraftur byggi þar.

VF-myndir/Þorgils - Frá undirritun samningsins. Runólfur Ágústsson, Keili, Þorsteinn Sigfússon NMÍ, Jón Atli Benediktsson HÍ og Kjartan Eiríksson, Kadeco, undirrita samnginn. Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, og Árni Sigfússon, bæjarstjóri, standa þeim að baki. - Össur hélt stutta tölu. - Svipmydnir frá aðstöðunni í Eldey. Þar eru fjölmörg verkstæði sem eiga eftir að þjóna nemendum og öðrum sem vinna munu við frumkvöðlasetrið.